Grindvíkingar komu til baka í lokin
Grindvíking lentu tveimur mörkum undir á heimavelli gegn Vestra í Lengjudeild karla í knattspyrnu en komu til baka og jöfnuðu með tveimur mörkum undir lok leiks. Grindvíkingar sóttu hart að marki Vestra og voru ekki langt frá því að taka öll stigin. Á sama tíma tapaði Þróttur heima fyrir KV með tveimur mörkum gegn einu. Reynir Sandgerði reif sig í gang og vann góðan sigur á Magna í 2. deild karla en Reynismenn sitja áfram í fallsæti.
Grindavík - Vestri 2:2
Gestirnir í Vestra komust yfir á 24. mínútu þegar skot sóknarmanns fór í Viktor Guðberg Hauksson og í þaðan í markið. Annars var fyrri hálfleikur frekar tíðindalítill og liðin áttu í erfiðleikum með að finna taktinn.
Hálfleiksræða Alfreðs Elíasar Jóhannssonar, þjálfara Grindavíkur, hefur skilað einhverju því Grindvíkingar mættu mun ákveðnari til seinni hálfleiks, staðráðnir í að skora. Það voru hins vega Vestramenn sem tvöfölduðu forystuna eftir hornspyrnu (75') þvert gegn gangi leiksins.
Markið var eins og blaut tuska í andlit Grindvíkinga sem var augljóslega brugðið og mátti lesa vonleysi og uppgjöf á liðinu – en Alfreð gerði þá mikilvæga tvöfalda skiptingu auk þess að Guðjón Pétur Lýðsson sýndi mikinn karakter á vellinum og öskraði menn í gang. Aðeins mínútu eftir skiptinguna minnkuðu Grindvíkingar muninn þegar misskilningur varð í öftustu línu Vestra og Aron Jóhannsson var réttur maður á réttum stað, hann sótti fast að markverði Vestra sem missti af boltanum og Aron hálfpartinn datt með hann yfir marklínuna (80').
Grindvíkingar fengu blóð á tennurnar við markið og settu aukinn kraft í sóknina. Freyr Jónsson fékk góða sendingu inn fyrir vörn Vestra og hafði betur í kapphlaupi um boltann en varnarmaður Vestra felldi hann innan teigs og aðstoðardómarinn kallaði vítaspyrnu. Leikmenn Vestra voru mjög ósáttir við dóminn en myndirnar sýna að aðstoðardómarinn hafði rétt fyrir sér og vítadómurinn fullkomlega réttmættur. Guðjón Pétur fór á vítapunktinn og skoraði örugglega (84').
Þrátt fyrir að hafa pressað stíft í lokin náðu Grindvíkingar ekki inn þriðja markinu og jafntefli því niðurstaðan.
Fleiri myndir úr leiknum eru í myndasafni neðst á síðunni.
Þróttur - KV 1:2
Þróttur lenti undir í byrjun leiks (2') eftir slaka varnarvinnu. Gestirnir voru betri í fyrri hluta hálfleiksins en Þróttarar unnu sig inn í leikinn og náðu tökum á honum. Michael Kedman átti gott skot sem hafnaði í stönginni en Arnór Gauti Úlfarsson fylgdi vel á eftir og kom boltanum í netið (35').
KV reyndist sterkari í seinni hálfleik og skoruðu þeir sigurmarkið á 62. mínútu. Þeir misstu svo mann af velli þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Einum fleiri sóttu Þróttarar og settu pressu á KV sem hhélt út og landaði sigri að lokum.
Reynir - Magni 2:0
Reynismenn voru sterkari aðilinn í botnslag 2. deildar þegar Magni mætti á Blue-völlinn. Vel útfærð sókn sem endaði með marki Magnúsar Magnússonar kom Reyni í forystu (18'). Barros átti stoðsendinguna og han sá sjálfur um að tvöfalda forystuna skömmu fyrir hálfleik (40').
Fleiri urðu mörkin ekki og Reynismenn minnka forskot KFA, sem er í þriðja neðsta sæti, í fjögur stig í fallbaráttunni. Þegar þrjár umferðir eru eftir þarf Reynir að sækja fimm fleiri stig en KFA til að halda sætinu í deildinni en þessi tvö lið mætast í síðustu umferðinni sem gæti orðið hreinn úrslitaleikur um fall.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, skrapp á leikina í Sandgerði og Grindavík og eru fleiri myndir í myndasöfnum hér fyrir neðan.