Grindvíkingar Íslandsmeistarar í þriðja sinn
- Lögðu Stjörnuna af velli í oddaleik í Röstinni
Grindvíkingar urðu í kvöld Íslandsmeistarar karla í körfuknattleik í þriðja sinn í sögu félagsins. Gulir lögðu Stjörnumenn af velli, 79-74, í æsispennandi oddaleik. Mikil spenna var á lokamínútunum og tókst Grindvíkingum að halda út eftir að hafa leitt leikinn lengst af.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og komust í 9-0. Þá mættu heimamenn loksins til leiks og svöruðu hressilega fyrir sig því staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-16. Stjarnan varð svo fyrir miklu áfalli í öðrum leikhluta þegar Jarrid Frye varð af yfirgefa völlinn eftir að hafa snúið sig illa á ökkla. Hann kom ekki meira við sögu í leiknum og svo sannarlega skarð fyrir skildi hjá Stjörnumönnum. Þrátt fyrir fjarveru Frye héldu gestirnir úr Garðabænum í við heimamenn og staðan í háfleik, 41-33.
Aaron Broussard ásamt ungum syni sínum. Boussard var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.
Grindavík virtist ætla að stinga af í þriðja leikhluta og var liðið lengst af með forystu í tveggja stafa tölu. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var langt frá því að vera sáttur með dómgæsluna í leiknum og fékk hann dæmdan á sig ásetning er hann gagnrýndi dómgæsluna harkalega. Héldu þá margir að leikurinn væri úti enda heimamenn með góða forystu og leikur Stjörnumanna ekki upp á marga fiska. Staðan fyrir lokaleikhlutann 62-52.
Stjarnan byrjaði lokaleikhlutann frábærlega og náði að komast einu stigi yfir um miðbik lokaleikhlutans. Þá fór um marga Grindvíkinga sem troðfylltu Röstina. Þegar lítið var eftir skoruðu Grindvíkingar sex stig í röð og héldu þá margir að þetta væri komið. Justin Shouse minnkaði muninn fyrir gestina með að setja niður fjögur vítaskot í röð. Aaron Broussard reyndist hins vegar hetja Grindvíkinga þegar hann skoraði síðustu þrjú stig leiksins og tryggði Grindvíkingum titilinn í þriðja sinn.
Þetta er í fyrsta sinn sem Grindavík verður Íslandmeistari á heimavelli. Áður hafði liðið orðið Íslandsmeistari í Keflavík árið 1996 og í Þorlákshöfn árið 2012. Aaron Broussard var í lok leiks valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar og ekki af ósekju. Hann var frábær í einvíginu og skoraði 25 stig í kvöld. Samuel Zeglinski átti einnig fínan leik og var með 21 stig. Sigurður Þorsteinsson skoraði 12 stig og var einnig duglegur að verja skot. Hann var með alls sjö varða bolta í kvöld.
Nánar verður fjallað um sigur Grindvíkinga á vef Víkurfrétta í kvöld og á morgun. Búast má við skemmtilegum myndböndum frá lokaleiknum sem var hin besta skemmtun.
Grindavík-Stjarnan 79-74 (20-16, 21-17, 21-19, 17-22)
Grindavík: Aaron Broussard 25/9 fráköst/5 stoðsendingar, Samuel Zeglinski 21/6 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/11 fráköst/7 varin skot, Þorleifur Ólafsson 9/6 fráköst, Davíð Ingi Bustion 5, Jóhann Árni Ólafsson 4/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3.
Stjarnan: Marvin Valdimarsson 17/9 fráköst, Justin Shouse 14/4 fráköst/7 stoðsendingar, Brian Mills 12/11 fráköst, Jovan Zdravevski 10/7 fráköst, Jarrid Frye 9, Fannar Freyr Helgason 8/7 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 4.
Ólafur Ólafsson með föður sínum í leikslok.
Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar 2013!