Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar í fallsæti eftir tap gegn Fram
Sunnudagur 25. september 2011 kl. 19:18

Grindvíkingar í fallsæti eftir tap gegn Fram

Það ringdi og blés hressilega í kvöld þegar að Grindvíkingar tóku á móti Frömurum í leik sem að var afar þýðingarmikill fyrir bæði lið. Svo fór að Fram hafði 1-2 sigur í miklum baráttuleik sem einkenndist dálítið af veðrinu.

Orri Gunnarsson kom gestunum yfir eftir 25.mínútna leik en Magnús Björgvinsson jafnaði leikinn í síðari hálfleik. Það var svo Hlynur Atli Magnússon sem tryggði gestunum stigin þrjú og eru Grindvíkingar komnir í fallsæti fyrir lokaumferðina þar sem þeir ferðast til Eyja og mæta ÍBV.

Leikurinn fór rólega af stað og greina mátti talsverða spennu í leikmönnum beggja liða. Gestirnir sóttu þó meira og fengu einar fimm hornspyrnur en Óskar Pétursson var vandanum vaxinn í markinu. Fyrsta alvöru færi leiksins kom ekki fyrr en á 25.mínútu þegar Steven Lennon átti magnaðan sprett inn í teiginn hægra megin og gekk Grindvíkingum bölvanlega að koma boltanum frá. Boltinn barst út fyrir teiginn á Orra Gunnarsson og átti hann fast skot niður í vinstri markhornið sem Óskar réð ekki við. Framarar því komnir yfir og staðan afar vænleg fyrir þá.

Grindvíkingar sóttu í sig veðrið eftir markið og átti Jóhann Helgason besta færi liðsins til að jafna. Hann fékk boltann skammt fyrir utan vítateig Framara og átti hörku skot að marki sem að Ögmundur þurfti að hafa sig allan við til að verja. Alexander Magnússon fékk svo ágætis færi skömmu síðar en færið var þröngt og Ögmundur lokaði vel á hann. Staðan því 0-1 í hálfleik fyrir gestina og staðan ekki góð fyrir Grindavík.

Grindvíkingar fengu gullið tækifæri til að jafna leikinn fljótlega í upphafi síðari hálfleiks þegar Óli Baldur Bjarnason átti virkilega góðan skalla að marki eftir sendingu Alexanders Magnússonar utan af hægri kantinum en Ögmundur Kristinsson bjargaði ævintýralega með glæsilegri myndavélamarkvörslu. Það dugði þó ekki lengi því Magnús Björgvinsson jafnaði leikinn fyrir heimamenn á 67. mínútu með góðu skoti hægra megin úr vítateignum en þá höfðu Grindvíkingar sótt látlaust.

Leikurinn opnaðist upp á gátt eftir jöfnunarmarkið og munaði litlu að Scott Ramsay kæmi heimamönnum yfir úr aukaspyrnu sem fór í gegnum varnarvegginn en Ögmundur gerði frábærlega. Óskar Pétursson gat ekki verið minni maður eftir hverja glæsimarkvörslu Ögmundar á fætur annarri. Hann varði á meistaralegan hátt frá Andra Júlíussyni sem var einn á auðum sjó fyrir framan markið. Grindvíkingar sóttu stíft síðustu mínútur leiksins og gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki.

Grindvíkingar eiga því erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir mæta ÍBV í síðustu umferðinni og Óskar Pétursson sagði í samtali við VF eftir leikinn að nú væri þetta hreinlega bara spurning um hvort að menn vildu virkilega vera í efstu deild. „Við stefnum bara á sigur í Eyjum næstu helgi, fyrst að við klúðruðum þessu í kvöld,“ sagði fyrirliðinn Óskar sem oft á tíðum varði glæsilega í kvöld. „Ef að menn ná ekki að mótivera sig fyrir leikinn í eyjum þá eiga þeir ekki skilið að vera í þessari deild,“ sagði Óskar ómyrkur í máli að lokum.

Staðan





Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stuðningsmenn Grindavíkur fögnuðu marki Magnúsar Björgvinssonar innilega



Hún var aðeins þyngri brúnin þegar Fram komst í 1-2