Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar halda í vonina
Ásgeir Ingólfsson, fyrirliði Grindavíkur
Sunnudagur 23. ágúst 2015 kl. 00:34

Grindvíkingar halda í vonina

0-2 sigur á HK og enn eru tölfræðilegar líkur á Pepsí deildar sæti

Grindvíkingar hafa sagt spekingum stríð á hendur í baráttu sinni í 1. deild karla en flestallir fjölmiðlar, þeirra á meðal undirritaður blaðamaður Víkurfrétta, voru búnir að afskrifa vonir Grindvíkinga um sæti í Pepsí deildinni að ári eftir tap liðsins gegn Þrótti í síðustu viku. Grindavík vann í gær 0-2 sigur á liði HK og eigir enn von á því að ná Þrótturum og hrifsa af þeim 2. sætið í deildinni.

Grindvíkingar mættu í Kórinn í Kópavoginn í gær með engu að tapa. Liðið sat fast um miðja deild og vonir þeirra á því að ná 2. sætinu orðnar ansi litlar. Fyrir leik var vitað að aðeins væri um eitt sæti að spila í Pepsí deildinni á næsta ári þar sem að Víkingur Ólafsvík var búið að stinga af í 1. deild karla fyrir margt löngu síðan og Þróttarar fóru langleiðina með útiloka vonir Grindvíkinga með því að leggja þá að velli í 16. umferð. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík mætti tilbúið til leiks og voru fyrri til að ógna marki andstæðinga sinna þegar Matthías Örn Friðriksson átti fast skot á 10. mínútu sem að markvörður HK þurfti að hafa sig allan við við að verja. Grindvíkingar þurftu þó ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það gerði Marko Valdimar Stefánsson eftir hornspyrnu Marínós Helgasonar.

Heimamenn í HK sóttu meira eftir markið en það voru Grindvíkingar sem áttu þó hættulegri færi en hvoru liðinu tókst að koma boltanum í markið áður en flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var svo ívíð rólegri en sá fyrri þar sem að fá færi létu á sér kræla en leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og ljóst að næsta mark myndi mögulega ráða úrslitum. Það voru Grindvíkingar sem að það gerðu og það ekki fyrr en á 89. mínútu þegar Matthías Örn Friðriksson fylgdi á eftir skoti Björns Berg Bryde sem markvörður HK hafði varið og innsiglaði því kærkominn 0-2 sigur fyrir þá gulklæddu.

Það verður vissulega að telja líkur Grindvíkinga á því að ná ætlunarverki sínu hverfandi. Liðið situr í 4. sæti með 30 stig, 7 stigum á eftir Þrótturum sem verma 2. sætið. 12 stig eru eftir í pottinum góða. Grindavík vann í gær annan leik sinn í röð og minnti okkur á að ekkert verður grafið í steininn fyrr en tölfræðilegir möguleikar verða að engu.

Grindavík hefur 12 stig að sækja í pottinn og framundan er leikur gegn toppliði Víkings frá Ólafsvík. Þar á eftir þarf liðið að leika við Þór Akureyri (5. sæti með 29 stig), KA (3. sæti með 34 stig) og Fram (9. sæti með 18 stig og í bullandi botnbaráttu). Það verður því ekki sagt að leiðin niður Öskubuskustræti sé auðfarin fyrir Grindavík og til að gera illt verra þarf liðið að treysta á að Þróttur misstígi sig tvisvar og KA einu sinni, að því gefnu að liðið taki fullt hús í öllum sínum leikjum.

Takist Grindvíkingum hið nánast ómögulega má segja að um verði að ræða einhverja mögnuðustu endurkomu liðs í sögu Íslandsmótsins.

Það kunna allir að meta gott ævintýri.

- [email protected] -