Grindvíkingar gjörsigraðir
FH-ingar færðust skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum þegar þeir tóku Grindvíkinga í bakaríið í Kaplakrika í gærkvöldi. Lokatölurnar voru 8-0 og skoraði Allan Borgvardt fjögur markanna. Hin mörkin skoruðu Tryggvi Guðmundsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Ólafur Páll Snorrason og Jónas Grani Garðarsson.
FH-ingar eru nú með 39 stig, 12 stigum meira en Valsmenn sem reyndar eiga leik til góða. Allan Borgvardt er markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 12 mörk. Grindvíkingar eru sem fyrr á botni deildarinnar með einungis 9 stig eftir 12 leiki. Þeir hafa því 6 leiki til þess að forða sér frá falli í deildinni.