Grindvíkingar gáfu eftir, aftur!
,,Ég bara veit ekki hvað þetta er, ég bara skil það ekki. Við byrjum leikinn af krafti, stjórnum hraðanum og þá er allt í blóma en svo er eins og við hættum að stjórna hraðanum. Þá gerist það að við látum Snæfell draga okkur niður í sinn hægagang og það hentar okkur illa og þeim vel. Nú snýst þetta bara um þennan eina leik, næsta leik. Þetta snýst ekkert um að vinna þrjá leiki í röð heldur vinna næsta leik, það er eini leikurinn sem við horfum í núna,” sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur daufur í dálkinn þegar Víkurfréttir náðu af honum tali í Stykkishólmi.
Snæfell tók 2-0 forystu í undanúrslitaeinvíginu gegn Grindavík í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og geta sent Grindvíkinga í sumarfrí þegar liðin mætast í sínum þriðja leik í Röstinni á laugardag. Eftir magnaðar upphafsmínútur hjá Grindavík komust heimamenn hægt og bítandi inn í leikinn og náðu að lokum að knýja fram 79-71 sigur frammi fyrir fjölmenni í Fjárhúsinu í Stykkishólmi. Landsliðsmaðurinn Hlynur Bæringsson var maður leiksins með 20 stig, 21 frákast og 7 varin skot.
Grindvíkingar voru vel gíraðir í upphafi leiks og keyrðu bikarmeistara Snæfells í kaf. Bæði fengu gestinir opin skot fyrir utan og áttu ekk í vandræðum með að sprengja upp vörn Snæfellinga og því var staðan 14-25 fyrir Grindavík eftir fyrsta leikhluta.
Varnarleikur Snæfellinga var mun skárri í öðrum leikhluta og hófu Grindvíkingar að gefa eftir. Hægt og bítandi tókst Snæfell að ná stjórnartaumunum á leiknum, hægðu á sér og gestum sínum. Justin Shouse minnkaði muninn í 27-33 með þriggja stiga körfu en liðin héldu svo til hálfleiks í stöðunni 35-37.
Grindavíkurvörnin var ekki með á nótunum í síðari hálfleik og fengu skyttur Snæfellinga oft að spóka sig óáreittar og því náðu heimamenn 10 stiga forskoti 56-46 þegar nokkuð var liðið á þriðja leikhluta. Anders Katholm sýndi það aftur að hann hittir ekki úr þriggja stiga skoti fyrir einhverja rælni og setti tvo sterka þrista í þriðja leikhluta sem lauk í stöðunni 64-54 fyrir Snæfell.
Óhætt er að segja að leikurinn í Stykkishólmi í kvöld hafi verið nokkuð svipaður fyrsta leiknum í Grindavík. Gulir litu betur út framan af leik en gefa svo eftir þegar líða tekur á og þá sigla Snæfellingar í átt að sigri.
Lokatölur leiksins í kvöld voru 79-71 fyrir Snæfell þar sem Hlynur Bæringsson var fremstur meðal jafningja með 20 stig, 21 frákast og 7 varin skot. Hjá Grindavík var Adama Darboe stigahæstur með 16 stig.
Liðin mætast í þriðja sinn á laugardag í Röstinni í Grindavík kl. 16:00. Grindvíkingar þurfa þá nauðsynlega á sigri að halda, að öðrum kosti er leiktíðinni lokið hjá þeim. Lykilmenn liðsins á borð við Pál Axel og Þorleif verða að bæta við sig snúningi en Páll Axel var með 13 stig í kvöld og Þorleifur 8 sem er nokkuð undir meðalskori þeirra beggja.
VF-Mynd/ [email protected]– Darboe var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld með 16 stig.