Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Grindvíkingar eiga Alfreð Finnbogason
    Ungur Grindvíkingur: Alfreð vel merktur á sínum yngri árum.
  • Grindvíkingar eiga Alfreð Finnbogason
    Þrír Grindvíkingar í U21 liði Íslands árið 2011. Jósef Kristinn Jósefsson, Óskar Pétursson og Alfreð Finnbogason.
Föstudagur 10. júní 2016 kl. 15:00

Grindvíkingar eiga Alfreð Finnbogason

„Ekki spurning, hann er Grindvíkingur,“ segir Sesselja Pétursdóttir móðir Alfreðs

Ef þú spyrð Grindvíkinga þá eiga Suðurnesjamenn þrjá fulltrúa á Evrópumóti karla í knattspyrnu sem hefst núna á laugardag. Framherjinn snjalli Alfreð Finnbogason ólst upp í Grindavík til tíu ára aldurs. Hans fólk í móðurætt er þaðan og þar á hann marga góða vini enn þann dag í dag. Grindvíkingar eru á því að þeir eigi sinn fulltrúa á Evrópumótinu en þá eru Suðurnesjamennirnir orðnir þrír á mótinu, en Njarðvíkingarnir Arnór Ingvi Traustason og Ingvar Jónsson eru einnig í hópnum.

Myndum afneita honum ef hann væri fjöldamorðingi

Jón Gauti Dagbjartsson fótboltaáhugamaður með meiru er ekki í nokkrum vafa um að Alfreð sé Grindvíkingur. „Já við teljum Alfreð Finnboga vera Grindvíking. Við eigum hann. Ef hann væri hins vegar fjöldamorðingi þá myndum við afneita honum,“ segir Grindvíkingurinn Jón Gauti og hlær dátt. Jón Gauti ætlar ekki að fara sjálfur til Frakklands en mun taka leikina í sjónvarpinu heima með tilheyrandi veisluhöldum. „Ég sinni bara Olís og berst áfram fyrir ykkur sauðsvartan almúgann í því að halda olíuverðinu niðri,“ bætir Grindvíkingurinn glettni við. Hann er spenntur fyrir mótinu en er hræddur um að Íslendingar geri of miklar væntingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta leggst vel í mig en ég er pínu smeykur vegna þess að við Íslendingar gerum alltaf miklar væntingar. Ég sé bara fyrir mér að við séum að fara að lyfta þessari dollu en svo töpum við kannski öllum leikjunum, þá verður maður brjálaður. Hver leikur verður tekinn hátíðlegur. Maður verður þó líklega að borða þremur tímum fyrir leik því maður verður svo stressaður að matarlystin fer.“

Verður ekki meira grindvískt en að vera andlit Lýsis

Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, þekkir vel til Alfreðs. Hann hlær bara þegar blaðamaður spyr hvort Alfreð sé Grindvíkingur. „Auðvitað. Hann er fæddur og uppalinn hér. Móðir hans Sesselja Pétursdóttir er héðan, en afi hennar átti eitt sinn Fiskifjöl & Lýsi sem brann hérna um árið.“

Alfreð og Vilmundi syni Jónasar er vel til vina og hefur Vilmundur heimsótt Alfreð í öll þau lönd sem framherjinn hefur leikið í atvinnumennskunni. Grindvíkingar tala sín á milli um sinn mann í landsliðinu þegar Alfreð er annars vegar. „Við tölum um okkar mann í hópnum og það gerir hann sjálfur. Hér eru hans rætur.“

Jónas var með lítinn fótboltavöll á blettinum hjá sér þegar þessir strákar voru að slíta barnsskónum. „Þar voru þeir öllum stundum í fótbolta. Sem barn var Alfreð algjör yfirburðarmaður og það sást langar leiðir hvert hann færi.“ Í dag er Alfreð tengdur stóru vörumerki sem alltaf hefur haft mikla tengingu við Grindavík. „Hann fékk alltaf lýsi hjá mér en ég kom því í kring að Lýsi samdi við hann og nú er hann orðinn andlit fyrirtækisins. Langafi hans átti hérna verksmiðjuna þannig að það verður ekki meira grindvískt en að vera andlit Lýsis, því fyrirtækið tengist Grindvík, á rætur hingað og hefur stutt við fótboltann í bænum í yfir 30 ár,“ segir Jónas sem spáir Íslendingum upp úr sínum riðli á EM. „Það er svo mikill metnaður í þeim að þeir eru ekki í þessu nema til þess að vinna. Ég vona að Suðurnesjamönnum gangi vel á mótinu.“

Mamman ól hann upp sem Grindvíking

Sesselja Pétursdóttir, móðir Alfreðs, hefur alið upp í stráknum að hann sé úr Grindavík. „Ég myndi nú segja það, ekki spurning. Hann talar alltaf um sig sem Grindvíking. Þar sleit hann barnsskónum,“ segir Sesselja í samtali við blaðamann Víkurfrétta. „Það eru allir í Grindavík voðalega stoltir af honum,“ bætir hún við. Sjálf ólst Sesselja upp í Grindavík. „Ég á sterkar rætur þarna og segist alltaf vera frá Grindavík. Ég hef alið það upp í börnunum, sérstaklega þeim eldri.“

Foreldrar Alfreðs eru á leið til Frakklands um helgina og ætla sér að sjá alla leiki Íslands á mótinu. Sesselja á góðar minningar frá Grindavík og segir að þar hafi verið gott að ala upp börn. „Það að alast upp í Grindavík var áhyggjulaust. Það var gott að ala krakkana upp þar, ekki spurning. Maður er í raun með marga foreldra sem aðstoða og allir vinna saman. Ég hugsa að það séu margir í Grindavík sem telja sig eiga eitthvað í Alfreð og það má alveg vera þannig,“ segir mamma framherjans öfluga að lokum.


Alfreð er annar frá vinstri í neðri röð.