Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar deildarmeistarar í körfuknattleik
Þorleifur Ólafsson tók við deildarmeistaratitlinum annað árið í röð. VF-myndir/JJK
Föstudagur 15. mars 2013 kl. 00:59

Grindvíkingar deildarmeistarar í körfuknattleik

Grindvíkingar eru deildarmeistarar í Domino´s deild karla 2013. Gulir og glaðir tryggðu sér titilinn í kvöld með sigri á Fjölni 97-82 í Röstinni. Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum því Fjölnismenn létu topplið Grindavíkur hafa vel fyrir hlutunum. Þrátt fyrir hetjulega baráttu í kvöld eru Fjölnismenn á botni deildarinnar og ekkert annað en sigur gegn Stjörnunni í lokaumferðinni getur bjargað þeim. Grindvíkingar hinsvegar verða á toppnum og ekki haggað þaðan sama hvað gerist í lokaumferðinni á sunnudag.

Í kvöld var það Aaron Broussard sem sá til þess að Grindvíkingar héldu Fjölni fjarri en hann fór mikinn og þá sérstaklega þegar Fjölnismenn gerðu sig líklega til að jafna leikinn eða jafnvel reyna að komast yfir.

Sammy Zeglinski var heitur í fyrsta leikhluta og gerði þá 12 af 25 stigum heimamann og einn þristur í lok leikhlutans kom langt utan úr bæ. Fjölnismenn voru á hælunum í upphafi leiks og Grindvíkingar gerðu átta fyrstu stigin áður en Fjölnir komst á blað. Staðan 25-17 að loknum fyrsta leikhluta þar sem gestirnir náðu að hrista sig í gang fyrir tilstilli Isaac Miles.

Jón Axel Guðmundsson kom með góða baráttu inn í lið Grindavíkur í öðrum leikhluta og gestirnir freistuðu þess að þvinga þennan unga og efnilega bakvörð í vandræði en hann lét ekki skáka sér og fór vel með boltann. Fjölnismenn voru aldrei langt undan en náðu heldur ekki að brjóta ísinn fræga. Ryan Pettinella fékk enn eina ferðina nokkuð stranga meðferð frá dómurum kvöldsins og mátti sig lítið hræra án þess að fá dæmda á sig villu í Grindavíkurliðinu. Vissulega er kappinn á stundum full ákafur en ól hans er æði þröng og fékk hann fimm villur í kvöld að endingu.

Gunnar Ólafsson minnkaði muninn í 41-32 með bráðnauðsynlegum þrist fyrir Fjölni en heimamenn voru við stýrið og leiddu 48-38 í leikhléi.

Gestirnir úr Grafarvogi mættu dýrvitlausir inn í síðari hálfleikinn, Tómas Heiðar prjónaði sig margoft í gegnum vörn heimamanna og olli þar miklum usla. Munurinn minnkaði jafnt og þétt og opnuðu gestirnir síðari hálfleik með 6-14 byrjun og Sverri Þór þjálfara Grindavíkur var ekki skemmt. Nokkuð reiðuleysi var á leik Grindavíkur í þriðja leikhluta og það hitnaði vel í kolunum, óíþróttamannsleg villa leit dagsins ljós sem gestirnir mótmæltu hástöfum en létu það þó ekki aftra sér í að ná muninum niður í 68-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Hefðu eflaust komist yfir ef Aaron Broussard hefði ekki dregið Grindavíkurvagninn í síðari hálfleik.

Gunnar Ólafsson minnkaði muninn í 70-67 í upphafi fjórða leikhluta og mikið kapp hlaupið í gestina. Grindvíkingar hertu þó róðurinn og Daníel Guðni Guðmundsson kom Grindavík í 76-68 með þriggja stiga körfu og hélt fyrir vikið beint á bekkinn. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum!

Broussard hélt áfram að reynast Fjölni erfiður og á lokasprettinum kom Þorleifur Ólafsson Grindavík í 90-82 þegar rúm mínúta var til leiksloka og það dugði til. Sú karfa Þorleifs svona endanlega tryggði heimasigurinn sem þó var nokkrum sinnum í hættu.

Aaron Broussard var besti maður heimamanna með 25 stig og 14 fráköst, níu þeirra komu á sóknarendanum. Sammy Zeglinski var þó stigahæstur með 26 stig. Hjá Fjölni var Isaac Miles með 20 stig, Chris Smith með 19 stig og 17 fráköst, Tómas Heiðar með 16 stig og 6 fráköst og Arnþór Freyr með 14 stig.

Umfjöllun: www.karfan.is


Leikmenn Grindavíkur ásamt ungu kynslóðinni í bæjarfélaginu. 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024