Grindvíkingar bikarmeistarar í körfubolta 2014
Sigruðu ÍR-ingar í úrslitaleik í Laugardalshöll 89-77. Sigurður Þorsteinsson maður leiksins.
Grindvíkingar hristu af sér bikardraug undanfarinna ára og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í körfuknattleik þegar þeir unnu ÍR í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag. Lokatölur urðu 89-77 fyrir þá gulu og bláu úr Grindavík sem unnu loksins eftir að hafa tapað þremur síðustu úrslitaleikjum í Höllinni.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var valinn maður leiksins og fór hamförum í seinni hálfleik þegar Grindvíkingar voru að stinga ÍR-inga af í lokaleikhlutanum. „Við náðum að hrista þá af okkur í lokin. Þetta var sætur sigur og þessu munum við fagna,“ sagði risinn sem hefur aldrei leikið betur en í vetur. Hann skoraði 20 stig og tók 11 fráköst. Lewis Clinch Jr. gerði líka 20 stig, þar af 16 í fyrri hálfleik. Hjá ÍR skoraði Sveinbjörn Claessen 18 stig.
„Ég var í liðinu í síðustu þremur tapleikjum. Þetta er miklu betri tilfinning. Við héldum okkur við leikskipulagið og börðumst vel, allir sem einn. Nú verður fagnað í Grindvík í kvöld,“ sagði Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindvíkinga.
Eftir að hafa farið til leikhlés með 5 stiga forskot héldu Breiðhyltingar eflaust að þeir ættu möguleika en þeir skoruðu margar fallegar körfur í fyrri hálfleik úr erfiðum stöðum. Þeir héldu í við þá í þriðja leikhluta en í þeim fjórða tóku Grindvíkingar öll völd á vellinum og þegar yfir lauk var munurinn tólf stig, 89-77.
Sigurreifir Grindvíkingar með bikarinn.
Bræðurnir með börnunum og bikarinn. Gaman.