Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar alltaf skrefinu á undan
Dedrick Basile lék vel gegn fyrrum samherjum sínum en hann skilaði þrjátíu stigum í hús fyrir Grindavík. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. nóvember 2023 kl. 23:52

Grindvíkingar alltaf skrefinu á undan

Grindvíkingar höfðu betur gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Suðurnesjaliðin áttust við í Subway-deild karla í körfuknattleik. Grindavík náði tíu stiga forskoti í þriðja leikhluta og nítján stiga forystu í þeim fjórða en Njarðvíkingar sóttu hart að þeim undir lokin og minnkuðu muninn í tvö stig. Það dugði þó ekki til og að lokum hafði Grindavík betur 87:95.

Njarðvík - Grindavík 87:95

Það hljóp harka í leikinn strax á fyrstu mínútu og leikmenn beggja liða virtust tilbúnir í slaginn. Gestirnir fóru betur af stað og höfðu þriggja stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (17:20).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimamenn lifnuðu við í öðrum leikhluta þar sem þeir jöfnuðu og gott betur en það, Njarðvíkingar leiddu í hálfleik með tveimur stigum (43:41).

Í þriðja leikhluta voru Grindvíkingar langtum betri og náðu fljótlega tíu stiga forystu (53:63) og héldu henni fram að fjórða leikhluta (61:71). Það má segja að heimamenn hafi verið á hælunum og ekkert gekk upp hjá þeim.

Grindvíkingar héldu uppteknum hætti í fjórða leikhluta og juku muninn í nítján stig um hann miðjan (64:83). Síðustu mínúturnar gerðu Njarðvíkingar harða atlögu að gestunum, pressuðu stíft og fóru að setja skot niður. Munurinn minnkaði jafnt og þétt og þegar 50 sekúndur voru eftir setti Maciej Baginski niður þrist til að minnka muninn í tvö stig (87:89).

Njarðvíkingar unnu boltann og fengu tækifæri til að jafna leikinn þegar Elías Pálsson stal boltanum af Basile en Mario Matasovic brást bogalistinn undir körfunni. Matasovic náði frákastinu og Chaz Williams keyrði upp að körfunni en ofan í vildi boltinn ekki.

Derdrick Basile brunaði upp völlinn en það var brotið á honum og tvö vítaköst dæmd sem Basile setti niður. Staðan 87:91 og 29 sekúndur til stefnu fyrir Njarðvík til að stela sigrinum.

Það gekk hins vegar ekki eftir og Daniel Mortensen var næstur á vítalínuna fyrir Grindavík. Hann jók muninn í sex stig (87:93) og lokaorðið átti Deandre Kane þegar hann tróð með tilþrifum og innsiglaði sigur Grindvíkinga, 87:95.

Dedrick Basile reyndist Njarðvíkingum óþægur ljár í þúfu en hann gerði 30 stig auk þess að taka sex fráköst og eiga fjórar stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Carlos Novas Mateo í fararbroddi með 26 stig og fimm fráköst.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, ræddi við Maciej Baginski og Ólaf Ólafsson eftir leik.


Njarðvík - Grindavík (87:95) | Subway-deild karla 2. nóvember 2023