Grindvíkingar ákváðu að standa og falla með fallegum fótbolta
-„Janko boltinn“ mun koma Grindvíkingum aftur á kortið
Grindvíkingar virtust eiga víst sæti í Pespi deildinni í knattspyrnu þegar nokkrar umferðir voru eftir af leiktíðinni í 1. deild karla. Óskar Pétursson markvörður liðsins puttabrotnaði þegar nokkrir leikir voru eftir. Eftir að hann varð frá að hverfa töpuðust tveir mikilvægir leikir í toppbaráttunni. Óskar segir fjarveru sína ekki hafa skipt sköpum, hver og einn leikmaður verði að taka ábyrgð á sínum gjörðum og ekki sé við staka leikmenn að sakast.
„Þetta var grátlegt. Við stigum of mörg feilspor en við erum ekki að dvelja of mikið við það. Framundan er bara nýtt tímabil og nýir tímar. Við vorum oft búnir að koma okkur í þægilega stöðu. Þá virðist vera að við höfum slakað á. Við áttum of marga slæma daga þegar uppi var staðið. Það varð okkur að falli og vissulega eru þetta vonbrigði,“ sagði Óskar í samtali við Víkurfréttir.
Óskar er enn að jafna sig af meiðslunum en hann segir sárt að horfa upp á það að liðið hafi ekki unnið sér sæti í deild þeirra bestu. Óskar er á því að þar eigi Grindvíkingar heima og þangað sér ennþá stefnt. „Hvort sem það eru leikmenn eða stjórn og þjálfarar, þá er stefnan sett á það að fara aftur upp. Menn kunna ekki að gefast upp hér í Grindavík og þannig verður það áfram.“
Óskar segir margt jákvætt hægt að taka frá sumrinu og þá tekur hann sérstaklega fram að spilamennska liðsins hafi tekið stakkaskiptum. Liðið hafi verið að spila svokallaðan „Janko bolta“.
„Við settumst niður þegar tímabilið var hálfnað. Fyrirliðar, þjálfarar og stjórn og við ræddum framhaldið,“ segir Óskar en þá var staða Grindvíkinga ansi vænleg. „Við vorum allir sammála um það að halda áfram að spila góðan fótbolta. Við myndum hreinlega stenda og falla með því. Janko (Stefán Milan Jankovic þjálfari) er vanur að spila alvöru fótbolta og hér í Grindavík er þetta kallað að spila „Janko bolta,“ segir Óskar. Hann segir Grindvíkinga hafa farið frá því að vera ekki að spila fótbolta í það að spila frábæran fótbolta. „Þessi fótbolti mun koma Grindvíkingum aftur á kortið.“
Grindvíkingar töpuðu þessum tveimur leikjum samtals 7-0 og að lokum fór það svo að markatalan skipti sköpum. Víkingar sem unnu eftirminnilega 16-0 gegn Völsungi fóru upp en níu mörkum munaði á Grindvíkingum og Víkingum, liðin voru jöfn að stigum með 42 stig en Víkingar fóru upp.
Hvað varðar það að Óskar verði áfram hjá Grindavík vildi markvörðurinn sem minnst segja um það. „Ef við höldum áfram á sömu braut og í sumar þá er ekkert nema bjart framundan hjá klúbbnum.“
Óskar á eitt ár eftir af samningi sínum við Grindavík. „Það er svo margt sem maður veit ekki með framhaldið. „Það verður bara að koma í ljós. Mig langar bara að hugsa um eitthvað allt annað en fótbolta næstu vikurnar.“