Grindvíkingar áfram eftir spennandi leik
Það ríkti töluverð eftirvænting eftir leik Grindvíkinga og Njarðvíkinga í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla sem fram fór í Röstinni í kvöld. Það voru heimamenn í Grindavík sem fóru með sigur af hólmi en tæpt stóð það. Lokatölur 78-77.
Í upphafi var lítið skorað og sjálfsagt taugatitringur í leikmönnum, enda mikið í húfi.
Gestirnir voru að taka mikið af þriggja stiga skotum en þau voru ekki að detta sem skildi hjá þeim. Njarðvíkingar leiddu þó með fjórum stigum í hálfleik og munaði þar miklu um framlag Tracy Smith, en hann var með 17 stig. Hjá Grindvíkingum var stóri maðurinn einnig að skila sínu, en Sigurður Þorsteinsson var þá kominn með 13 stig. Staðan 36-40 og allt útlit fyrir spennu.
Þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður jafnaði Lewis Clinch fyrir Grindavík, 52-52 en fram að því höfðu gestirnir verið með yfirhöndina. Grindvíkingar létu ekki forystuna af hendi eftir það. Clinch var ekki hættur og kom Grindvíkingum yfir en kappinn skoraði níu stig í röð á tímabili. Þegar fjórði leikhluti hófst leiddu heimamenn með níu stigum, 64-56 og Clinch kominn með 20 stig.
Njarðvíkingar gerðu leikinn aftur spennandi og allt virtist stefna í það að úrslitin réðust á síðustu stundu. Eftir töluverð mistök frá báðum liðum þegar um 2:00 mínútur voru eftir af leiknum, komust Njarðvíkingar upp að hlið Grindvíkinga og voru til alls líklegir. Þegar mínúta lifði leiks var munurinn orðinn eitt stig, 75-74 fyrir Grindavík. Njarðvíkingar náðu þó aldrei að jafna og Grindvíkingar lönduðu sigri, þrátt fyrir hetjulega baráttu gestanna. Grindvíkinga leiddu með fjórum stigum þegar þrjár sekúndur lifðu af leiknum, Tracy Smith náði þá að laga stöðuna með þriggja stiga körfu en lokatölur voru 78-77 eins og áður segir. Grindvíkingar eru því komnir í undanúrslit þetta árið.
Erlendu leikmennirnir voru í aðalhlutverki og náðu lykilmenn sé ekki á strik í báðum liðum. Elvar Friðriksson hitti aðeins úr einu af tíu þriggja stiga skotum sínum í leiknum, eins hitti Elvar aðeins úr 50% víta sinna. Hjá Grindavík hafa þeir Jóhann Árni og Þorleifur oft leikið betur.
Grindavík-Njarðvík 78-77 (17-18, 19-22, 28-16, 14-21)
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 23/4 fráköst/8 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 20/7 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 16/9 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 13/10 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 4/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 2, Hinrik Guðbjartsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0/5 fráköst, Nökkvi Harðarson 0, Kjartan Helgi Steinþórsson 0, Hilmir Kristjánsson 0.
Njarðvík: Tracy Smith Jr. 28/5 fráköst, Logi Gunnarsson 13/5 fráköst, Elvar Már Friðriksson 13/8 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 10/6 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 8/6 fráköst, Ágúst Orrason 5/5 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 0, Maciej Stanislav Baginski 0, Halldór Örn Halldórsson 0, Friðrik E. Stefánsson 0, Egill Jónasson 0, Brynjar Þór Guðnason 0.
Earnest Lewis Clinch Jr. treður hér snyrtilega í leiknum.
Tracy Smith Jr. er nýr liðsmaður UMFN. Hann getur líka troðið.
Jóhann Árni Ólafsson hefur oft skorað meira (4 stig) en Sigurður Þorsteinsson (fjær) skilaði 20 stigum í hús. Grindvískir áhagendur fögnuðu vel og innilega í kvöld.