Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavíkurstúlkur með frábæran sigur á Keflavík í körfubolta
Miðvikudagur 12. janúar 2011 kl. 21:52

Grindavíkurstúlkur með frábæran sigur á Keflavík í körfubolta

Grindavíkurstúlkur sigruðu Keflavík í Toyota-höllinni í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld. Grindavík spilaði frábæran varnarleik ásamt vel skipulögðum sóknarleik en má segja að þetta sé einn versti leikur Keflavíkur í deildinni á þessu tímabili. Lokatölur urðu þannig 59-71, Grindavíkurstúlkum í vil.

Grindavík byrjaði af krafti með skipulagðri vörn en Keflavík skoraði ekki stig fyrr en það var vel liðið af fjórðu mínútu. Grindavík komst í stöðuna 2-10 eftir 5 mínútur en fór þá aðeins að slaka á í vörninni. Keflavík náði þá að minnka muninn og var staðan eftir fyrsta fjórðung 18-19 fyrir Grindavíkurstúlkum.

Annar fjórðungur byrjaði spennandi og voru leikar frekar jafnir en þegar 13 mínútur voru liðnar af leiknum gerðist eitthvað hjá liði Keflavíkur og stungu Grindavíkurstúlkur af en þær klukkuðu varla skoti seinnipart fyrri hálfleiks. Grindavík var með 17 stiga forystu hálfleik og Keflavík með aðeins 27 stig en staðan var 27-44.

Jón Halldór Eðvaldsson tuskaði stelpurnar til í hálfleik og hefur gefið þeim gott orð í eyra því þær komu vel til baka strax í seinni hálfleik en þær minnkuðu muninn jafnt og þétt. Grindavík hafði þó alltaf gott forskot og var munurinn aldrei minni en 10 stig. Að þriðja leikhluta loknum voru Grindavíkurstúlkur með 10 stiga forystu og staðan 47-57.

Keflavíkurstúlkur áttu engin ráð við leik Grindavíkur og náðu lítið að minnka muninn í seinasta fjórðungi. Þær náðu að minnka muninn mest í 6 stig þegar 2 mínútur voru eftir af leiknum og dugði það ekki til. Grindavík skoraði 6 stig seinustu tvær mínúturnar gegn engu stigi heimamanna og áttu Grindavíkurstúlkur þennan sigur klárlega skilið.

Stigahæst í leiknum var enn og aftur Jacquline Adamshick í liði Keflvíkinga með 34 stig og 10 fráköst. Fast á hælum hennar var Crystal Ann Boyd í liði Grindavíkur með 29 stig og 7 fráköst en Helga Hallgrímsdóttir í liði Grindavíkur var með flest fráköst í leiknum eða 11 stk.

Stigahæstar í liði Keflavíkur:

Jacquline Adamshick – 34 stig.
Bryndís Guðmundsdóttir – 8 stig.
Pálína Gunnlaugsdóttir – 7 stig.

Stigahæsta í liði Grindavíkur:
Crystal Ann Boyd – 29 stig.
Berglind Anna Magnúsdóttir – 12 stig.
Helga Hallgrímsdóttir – 10 stig.

VF-Mynd/siggijóns - Crystal Ann Boyd var með 29 stig fyrir Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

[email protected]