Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 17. mars 2004 kl. 20:59

Grindavíkurstúlkur lögðu Keflavík

Grindavík vann í kvöld sigur á nágrönnum sínum úr Keflavík, 65-62 í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik. Liðin munu því mætast á ný í oddaleik á föstudaginn til að skera úr um það hvort liðið komist í úrslitin.

 

Grindvíkingar byrjuðu af krafti og náðu forystunni snemma. Þær höfðu frumkvæðið allan leikinn án þess þó að ná afgerandi forystu, en léku góða vörn allan tímann og héldu aftur af sóknartilburðum Keflvíkinga.

Í fjórða leikhluta náðu Grindvíkingar 10 stiga forskoti, 61-51, og var allt útlit fyrir öruggan sigur. Þá veiktist Kesha Tardy skyndilega og þurfti að fara af leikvelli. Keflvíkingar sóttu þá á, en Grindvíkingar héldu haus og Tardy kom aftur inná fyrir leikslok og sigurinn var í höfn.

 

Hjörtur Harðarson kenndi slökum sóknarleik helst um tapið í kvöld. „Við vorum bara staðar og ekki nógu agressívar. En það þýðir ekki að væla. Við mætum bara tvíefldar á föstudaginn og klárum þetta.“

Pétur Guðmundsson var í skýjunum með sigurinn, en þetta er fyrsta tap Keflvíkinga síðan í desember. „Þetta var alveg frábært. Við spiluðum frábæra vörn og yfirvegaða sókn. Nú trúum við því að við getum sigrað þær á föstudaginn og við höfum engu að tapa.“

Hér má finna tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024