Grindavíkurstúlkur kláruðu riðlakeppnina með stæl
Mæta liði Augnablik í 8 liða úrslitum umspils um sæti í Pepsí deildinni
Grindavíkurstúlkur luku riðlakeppni sinni í b-riðli 1. deildar kvenna með góðum 3-0 sigri á liði Víkings frá Ólafsvík s.l. miðvikudag á Grindavíkurvelli.
Grindvíkingar leiddu 1-0 í hálfleik með marki Marjani Hing-Glover í uppbótartíma í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik gerðu heimakonur síðan úti um leikinn með tveimur mörkum, það fyrra gerði Marjani Hing-Glover á 59. mínútu og það var svo Guðrún Bentína Frímannsdóttir sem skoraði þriðja markið á 71. mínútu.
Með sigrinum tryggðu Grindavíkurstúlkur sér efsta sætið í b-riðli og eiga þar með auðveldari andstæðing fyrir hendi í 1. umferð umspils um laust sæti í Pepsí deild kvenna en 8 lið munu berjast um tvö sæti í deild þeirra bestu.
Grindavík mun mæta liði Augnabliks í 8 liða úrslitum í tveimur leikjum þar sem spilað er á heimavöllum beggja liða. Augnablik komst í umspilið sem annað af tveimur liðum sem náðu bestum árangri þeirra liða sem enduðu í þriðja sæti riðlakeppninnar.
Fyrri leikur liðanna fer fram í Fífunni í Kópavogi laugardaginn 29. ágúst kl. 14 og sá síðari á Grindavíkurvelli þriðjudaginn 1. september kl. 17:30.