Grindavíkurstúlkur hirtu stigin
Grindavík lagði RKV í a-riðli fyrstu deildar kvenna í knattspyrnu, sl. föstudag með tveimur mörkum gegn einu, en leikurinn fór fram á Keflavíkurvelli. Leikurinn var nokkuð jafn og vandséð hvort liðið færi með sigur af hólmi þar til á síðustu mínútunum. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, en Inga Emilsdóttir braut ísinn á annarri mínútu síðari hálfleiks, með skallamarki fyrir RKV. Aðeins átta mínútum síðar jafnaði Ólöf Pálsdóttir metin fyrir Grindavík. Náðarhöggið veittu Grindvíkingar svo RKV á 70. mínútu, þegar Ólöf Pálsdóttir skoraði annað mark sitt fyrir Grindavík og tryggði liði sínu sigur í leiknum. Mínútu síðar var Grindvíkingnum, Margréti Pétursdóttur vikið af leikvelli með rautt spjald eftir að hafa hlotið tvö gul í leiknum. Erla Ósk Pétursdóttir, systir Margrétar fékk einnig að líta rauða spjaldið í leiknum fyrir tvö gul spjöld á 81. mínútu. RKV sótti hart að marki Grindvíkinga síðustu tuttugu mínútur leiksins, en í markið vildi boltinn ekki og heimastúlkur þurftu að játa sig sigraðar fyrir nágrönnum sínum úr Grindavík.