Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindavíkurstúlkur fara á ballið!
Petrúnella átti stórleik í kvöld - mynd: karfan.is
Miðvikudagur 1. apríl 2015 kl. 21:32

Grindavíkurstúlkur fara á ballið!

Keflavík með stórsigur í Hveragerði

Deildarkeppni Domino´s deildar kvenna lauk í kvöld þar sem að Grindavíurstúlkur tryggðu sér farseðil í undanúrslitin með spennuþrungnum sigri á Valskonum í Röstinni, 80-77. Í Hveragerði voru Hamarsstúlkur lítil fyrirstaða fyrir Keflavík sem að vann gríðarlega sannfærandi sigur, 61-11.

Það var hreinn úrslitaleikur í Röstinni þar sem að Valskonur ætluðu sér að stela 4. sætinu af Grindavík sem hafði 2ja stiga forskot í deildinni fyrir leikinn. Leikurinn var hnífjafn allan fyrri hálfleikinn þar sem að liðin skiptust á að leiða en Valskonur fóru með örlítið forskot, 39-43, inn í hálfleikinn. Góður þriðji leikhluti Grindavíkurkvenna kom þeim yfir fyrir lokafjórðunginn sem að var æsispennandi. Þegar 12 sekúndur lifðu leiks munaði 2 stigum á liðunum og Valskonur áttu færi á því að stela sigrinum en þriggja stiga skottilraun þeirra geigaði. Petrúnella Skúladóttir gat svo innsiglað sigurinn á vítalínunni en hitti bara úr öðru skotinu og því áttu Valskonur möguleika á því að jafna leikinn en aftur geigaði 3ja stiga skot þeirra og Grindavík fagnaði naumum sigri og áframhaldandi veru sinni á Íslandsmótinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Petrúnella Skúladóttir átti frábæran leik fyrir heimakonur og skoraði 28 stig og tók 10 fráköst. Þá skoraði Pálína María Gunnlaugsdóttir 18 stig og tók 9 fráköst og Kristina King skoraði einnig 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Grindavík mun mæta deildarmeisturum Snæfells í undanúrslitum og ljóst að þar verður við ramman reip að draga. 

Keflavíkurstúlkur voru einfaldlega þremur númerum of stórar fyrir Hvergerðinga í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld. Leikurinn náði aldrei að verða spennandi og keyrðu Keflvíkingar yfir heimastúlkur allan leikinn og lönduðu stórsigri til að enda tímabilið á góðum nótum.

Carmen Tyson Thomas var atkvæðamest með 30 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og þá skoraði Marín Laufey Davíðsdóttir 16 stig og tók 7 fráköst en allir leikmenn Keflavíkur komust á blað í kvöld.

Keflvíkingar munu mæta Haukum í undanúrslitum og þar er á ferðinni athyglisverð rimma en liðin hafa skipst á sigrum í vetur.