Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindavíkingar enn taplausir og á toppnum
Föstudagur 28. október 2011 kl. 21:53

Grindavíkingar enn taplausir og á toppnum

Grindvíkingar eru einir á toppi Iceland Express deildar karla að loknum fjórum umferðum en gulir tóku á móti Tindastól í Röstinni í kvöld þar sem lokatölur voru 85-65 Grindavík í vil. Lengi vel héldu Stólarnir sér inni í leiknum og oftar en ekki vantaði herslumun til að gera spennandi leik úr stöðunni en þegar í lokasprettinn var komið reyndist Skagafjarðar-bensínið uppurið og fjórði tapleikur Stólanna því staðreynd í deildinni.
Trey Hampton var fljótur að sýna áhorfendum í Röstinni hve hátt hann getur hoppað, kappinn tróð þá með miklum látum yfir sjálfan Ólaf Ólafsson svo hrikti í stoðum körfunnar. Veggspjald.

Liðin skiptust á körfum en í stöðunni 10-11 Tindastól í vil skiptu Grindvíkingar um gír, gulir beittu 2-2-1 svæðispressu en það var ekki hún sem flæktist fyrir Stólunum. Skot gestanna vildu ekki niður og heimamenn léku góða liðsvörn fyrir innan þriggja stigalínuna og þegar fyrsta leikhluta lauk stóðu leikar 29-13 og Grindavík kláraði því leikhlutann 19-2 úr stöðunni 10-11 gestina í vil. Sigurður Gunnar Þorsteinsson fann sig vel í teignum hjá Grindavík og gerði 8 stig í leikhlutanum, brenndi ekki af skoti stóri maðurinn.

Gestirnir bitu frá sér í upphafi annars leikhluta og náðu að minnka muninn í 31-21 með 7-0 áhlaupi sem hófst á því að þristur margskoppaði ofan í hjá Helga Frey Margeirssyni. Grindvíkingar höfðu engu að síður undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu 47-36 í leikhléi og sú forysta virtist nokkuð áreynslulaus og Sigurður Gunnar Þorsteinsson hélt einokuninni áfram í teignum, 16 stig í hálfleik og 6 fráköst með 8 af 9 á blokkinni. Þeir J´Nathan Bullock og Giordan Watson bættu svo við 8 stigum fyrir gula í fyrri hálfleik. Hjá Tindastól var Trey Hampton með 12 stig og 5 fráköst og Maurice Miller var með 9 stig.

Lítið var skorað í upphafi síðari hálfleiks, bæði lið voru nokkuð mistæk framan af en Friðrik Hreinsson færði gestina aðeins nærri er hann minnkaði muninn í 53-43 með fimm Tindastólsstigum í röð. Þriðji leikhluti var nokkuð jafn en einkenndist af mistökum, Grindavík vann leikhlutann 18-16 og staðan því 65-52 fyrir lokasprettinn.

Í fjórða leikhluta fengu Tindastólsmenn smá glugga til að komast nærri Grindvíkingum en einhæfur sóknarleikur sem einskorðaðist við Maurice Miller varð þeim að falli. Góðu sprettir Stólanna í leiknum komu þegar sem flestum var komið í gang, opni maðurinn fundinn og boltinn látinn flæða eðlilega. Hjá Grindvíkingum voru alltaf til svör, þeir sýndu ekki sparihliðarnar í kvöld en unnu engu að síður öruggan sigur, 85-65.

Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/13 fráköst/5 stolnir, J'Nathan Bullock 18/8 fráköst, Giordan Watson 17/7 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 15, Ólafur Ólafsson 7, Ómar Örn Sævarsson 4, Jóhann Árni Ólafsson 3, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Þorleifur Ólafsson 0/4 fráköst, Morten Szmiedowicz 0.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024