Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík vann Njarðvík í Suðurnesjaslag í Smáranum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 6. mars 2024 kl. 22:27

Grindavík vann Njarðvík í Suðurnesjaslag í Smáranum

Nágrannarnir af Suðurnesjum, Grindavík og Njarðvík, mættust í kvöld í A-riðli Subway-deildar kvenna en seinni umferðin er nýhafin. Eftir venjulega deildakeppni var liðunum í Subway-deildinni skipt í tvo riðla, A og B. Efri fimm liðin leika tvöfalda umferð og var seinni umferðin að hefjast. Nágrannar þeirra, Keflavík, sátu hjá í kvöld. Um sannkallaðan fjögurra stiga leik var að ræða þar sem einungis tveimur stigum munaði á liðunum, Njarðvík ofar með fjórtán sigra og sex töp, Grindavík með þrettán sigra og sjö töp. 
Eftir að Grindavík var með tögl og haldir í þrjá leikhluta, virtust Njarðvíkurkonur ætla stela sigrinum í lokin en of mikil orka fór í endurkomuna og Grindavík vann sanngjarnan sigur, 77-69.

Fyrsti fjórðungur var nokkuð jafn, Grindavíkurkonur voru duglegri að frákasta til að byrja með sem leiddi til forystu en um leið og þær grænklæddu fóru að stíga betur út og jafna frákastabaráttuna náðu þær vopnum sínum. Þær hittu líka betur úr þristunum, voru komnar með 3/8 á meðan Grindavík var 0/6 í fyrsta fjórðungi. Munurinn var samt bara eitt stig að honum loknum, 19-20 fyrir Njarðvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sama barátta var í upphafi annars leikhluta, Sarah Mortensen kom gulum loksins á blað í þriggja stiga deildinni og kom þeim yfir 24-22. Þá var hún komin með 13 af stigum Grindavíkur, frábær leikmaður þarna á ferð. Það var eins og eitthvað losnaði úr læðingi, annar þristur frá Alexöndru Sverrisdóttur fylgdi í kjölfarið og Grindavík tók völdin á leiknum í sínar hendur og leiddu að loknum fyrri hálfleik, 39-30. 

Sarah var stigahæst að loknum fyrri hálfleik, áfram með sín 13 stig, Danielle Rodriguez var komin með 10 og Eve Braslis með 9. Kannski ekki fréttnæmt en bandaríski leikmaðurinn sem Grindavík bætti við fyrir lok gluggans, Kierra Anthony var ekki komin á blað. Hún hefur ekki náð sér á strik til þessa, hefur skorað 7,5 stig, tekið 4 fráköst og gefið 3 stoðsendingar að meðaltali.

Hjá Njarðvík var Emilie Hesseldal komin með 9 stig, Krista Gó Magnúsdóttir og Ena Viso með 6 stig, og Lára Ösp Ösgeirsdóttir 5 stig.

Njarðvíkurkonur fengu greinilega hárþurrkuna frá Rúnari þjálfara í hálfleik, þær komu mjög beittar til leiks og voru fljótlega búnar að minnka muninn í fjögur stig, 43-39. Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, stöðvaði áhlaupið með flottum þristi og gular tóku stjórnina á ný, annar fylgdi svo fljótlega í kjölfarið og allt í einu var Grindavík komið með 10 stiga forystu, 50-40. Þegar þær gulu settu muninn upp í 14 stig, 56-42, sagði Rúnar „hingað og ekki lengra“ og tók leikhlé þegar tæpar fjórar mínútur lifðu þriðja leikhluta. Munurinn hélt sér út hálfleikinn, 63-49 fyrir Grindavík fyrir lokabardagann.

Ótrúlegur viðsnúningur varð í lokafjórðungnum, það var eins og Njarðvíkurkonur hefðu sett lok ofan á sína körfu og sömuleiðis lentu Grindavíkurkonur nokkrum sinnum í að ná ekki skoti á körfuna á tilskyldum 24 sekúndum. Þessi leikur, körfuknattleikur, er magnaður oft á tíðum! Þær gulu rönkuðu loksins úr rotinu eftir að Njarðvík var komið yfir og áttu lokasprettinn, það fór greinilega of mikil orka hjá ljónynjunum í að ná þeim gulklæddu og sanngjarn Grindavíkursigur staðreynd, 77-69.

Sarah Mortensen skilaði flestum punktum fyrir Grindavík, 20 stig og 12 fráköst. Danielle Rodriguez var sömuleiðis með 20 stig og gaf 9 stoðsendingar. Allar hinar í byrjunarliðinu skoruðu 10+ stig í leiknum.

Hjá Njarðvík vaknaði sú bandaríska, Selena Lott, loksins í fjórða leikhluta og nánast setti öll sín 15 stig þá, það var bara of seint. Emilie Hesseldal sú eina fyrir utan Lott sem komst yfir tíu stigin, var með 14 stig. 

Grindavík á góðu rólu, liðið á Heklu Eik Nökkvadóttur inni og sú nýja bandaríska hlýtur bara að geta meira en hún hefur sýnt til þessa. Njarðvík hins vegar á öfugu róli, þær þurfa að fara girða sig í brók, þetta var fjórði tapleikurinn í röð og það styttist í úrslitakeppni.