Grindavík vann nágrannaslaginn
Grindavík tók á móti nágrönnum sínum úr Vogum í gær í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Þótt Grindavík hafi stutt vel við uppbyggingu knattspyrnunnar í Vogum og Þróttarar líti á þá sem einskonar stóra bróður var allur bróðurkærleikur lagður til hliðar í gær.
Það var á brattann að sækja hjá nýliðum Þróttar en þeir sýndu „stóra bróður“ enga virðingu og stóðu uppi í hárinu á Grindvíkingum framan af. Það voru samt heimamenn sem stýrðu leiknum en Þróttur varðist vel og átti sínar sóknir.
Það var fyrrum liðsmaður Þróttar, Dagur Ingi Hammer, sem braut ísinn á fyrstu mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar hann fékk góða sendingu frá félaga sínum, Kairo Asa Jacob Edwards-John, og skoraði fram hjá Rafal Stefáni Daníelssyni í marki Þróttar. Staðan 1:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri, heimamenn stýrðu leiknum og Þróttarar vörðust. Á 64. mínútu tók Kairo til sinna ráða þegar hann tók á rás upp hægri kantinn, inn í teig Þróttar og setti hann fram hjá Rafal. 2:0 og staðan orðin erfið fyrir nýliðana. Dagur Ingi rak svo smiðshöggið á sigur Grindvíkinga þegar hann nappaði boltanum af varnarmanni Þróttar og skoraði þriðja mark heimamanna (90').
Grindavík fer ágætlega af stað í Lengjudeildinni, er komið með fjögur stig eftir tvær umferðir, en Þróttarar bíða enn eftir sínum fyrstu stigum.
Þrjátíu ár á Íslandi
Ljósmyndari Víkurfrétta, Jóhann Páll Kristbjörnsson, kíkti á leik Grindavíkur og Þróttar og má sjá fleiri myndir neðar á síðunni.