Grindavík vann Keflavík í topp-Suðurnesjaslag Subway-deildar karla
Oft er talað um úrslitakeppnina í körfuknattleik sem vorboðann ljúfa, sú stemning var svo sannarlega fyrir hendi í dag og kvöld, þrátt fyrir að úrslitakeppnin sé ekki byrjuð og enn séu þrjár umferðir eftir af deildakeppninni. Tvö af liðunum í efri hlutanum, grannaliðin Keflavík og Grindavík mættust í Keflavík.
Vilhjálmur Lárusson, eigandi Sjómannastofunnar Varar (án fallbeyingar, Vör), bauð grindvískum stuðningsmönnum í kjötsúpu og drykk í salnum í Reykjaneshöllinni, sveitungar hans svöruðu svo sannarlega kallinu og var góð mæting. Minnti stemningin á leiknum um margt á úrslitakeppni, greinilegt að grindvískir stuðningsmenn eru klárir í hana, eitthvað minna fór fyrir Joey drummer og félögum hans í stuðningsmannasveit Keflavíkur.
Eftir mjög kröftuga byrjun þar sem Grindavík leiddi með 21 stig eftir fyrsta fjórðung, lönduðu Grindvíkingar tiltölulega öruggum sigri þó svo að Keflvíkingar hafi gert sig líklega til að koma til baka um tíma, lokatölur 74-87.
Með frábærum stuðningi grindvískra stuðningsmanna, voru þeirra menn á undan upp úr blokkunum og eftir fimm mínútna leik í fyrsta fjórðungi, munaði 8 stigum, 8-16. Vörn Grindvíkinga var geysisterk og heimamenn þurftu mikið að sætta sig við þriggja skot en með frekar döprum árangri, ⅙ var niðurstaðan eftir fimm mínútna leik. Þegar Keflvíkingar voru búnir að skjóta níu sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna, áfram með einu skoti ofan í, og eftir nokkrar tilraunir þar sem keyrt var upp að körfu en ekkert vildi ofan í, tók Pétur þjálfari Keflavíkur loksins leikhlé, 8-22 fyrir Grindavík. Næstu stig á töfluna var þriggja stiga skot frá Daniel Mortensen, hans annar þristur og staðan orðin 8-25! Keflavík tókst loksins að lauma inn svari, eitt vítaskota rataði ofan í en þriðji þristur Danans fylgdi í kjölfarið, svo karfa frá Vali Valsyni og staðan orðin 9-30, ótrúlegar tölur í Keflavík! Þegar tæpar fjórar sekúndur lifðu fyrsta leikhluta, komust heimamenn loksins í tveggja stafa tölu á stigatöflunni, það hefði verið saga til næsta bæjar ef það hefði ekki tekist. Staðan að loknum fyrsta fjórðungi, 11-32!
Ekki þarf körfuboltasérfræðing til að lesa í þessa stöðu, vörn Grindvíkinga var mjög sterk og oft vill þá sóknin taka þátt í partýinu. Hittnin var 4/11 í þriggja á meðan Keflavík var bara með 1/11. Daniel Mortensen sem hefur heldur betur vaxið ásmefgin að undanförnu, var búinn að setja öll sín þrjú þriggja stigaskot niður.
Keflvíkingar hafa líklega aldrei látið slátra sér í eigin sláturhúsi og var greinilegt á fasi leikmanna að það stóð ekki til og þeir komu einbeittir inn í annan leikhluta. Remy Martin setti fljótlega þrist, vörnin hertist og allt annar bragur var á heimamönnum, fyrstu sjö stig leikhlutans voru keflvísk. Á þessum tímapunkti skemmdi pottþétt ekki fyrir Grindvíkingum að vera með mann að nafni Deandre Kane í liðinu, sagan á götunni var að hann yrði ekki með í leiknum en hann var mættur í öllu sínu veldi. Sjálfstraustið hreinlega lekur af manninum og áður en varði var hann búinn að rétta Grindavíkurskipið af, hann skoraði og fékk víti, sótti svo aðra auðvelda körfu stuttu síðar og eftir áhlaup heimamanna var staðan allt í einu orðin 20-41. Gormurinn Arnór Tristan Helgason skellti í eina troðslu við mikinn fögnuð Grindvíkinga en annars leiddust liðin nánast hönd í hönd út hálfleikinn, Keflavík þó aðeins á undan og staðan að honum loknum 32-48. Eflaust fóru einhverjir á netið og athuguðu hvernig fyrri leikur liðanna fór, 82-111 fyrir Keflavík, 29 stiga munur og Grindavík á ágætis vegferð með að ná þeim mun.
Daniel Mortensen var algerlega á eldi, var kominn með 16 stig og búinn að hitta úr ⅘ þriggja stiga skotum sínum. Kane og Basile voru komnir með 11 stig.
Hjá Keflavík var Jaka Brodnik sá eini sem var kominn í tveggja stafa stigaskor, með 12 stig. Nýting Keflvíkinga fyrir utan þriggja stiga línuna 3/23, Igor Maric m.a. með ⅛. Svona hittni er ekk líkleg til afreka.
Keflvíkingar komu mjög ákveðnir til leiks í seinni hálfleik, byrjuðu á að verja þriggja stigaskot Ólafs Ólafsonar og skoruðu auðvelda körfu, settu svo aðra og þegar Remy Martin setti þrist nánast frá miðju, brjálaðist Keflavíkurhluti stúkunnar! Munurinn orðinn 8 stig, 40-48, gestirnir ekki komnir á blað í seinni hálfleik, þessi íþrótt… Munurinn var kominn niður í fimm stig en þá kom fyrrnefndur Kane til sögunnar, tróð viðstöðulaust eftir sendingu frá Basile og máttu hugsanlega þakka fyrir að fá á ekki á sig tæknivillu eftir að hafa hangið of lengi í hringnum og meira að segja sýnd hvað hann er sterkur með upphýfingu! Grindvískir ærðust og svo virtist ætla hitna í kolunum, Valur Orri og Jaka Brodnik lenti saman og voru gæslumenn komnir inn á völlinn til að stía mönnum í sundum! Sumir gætu munað eftir fyrri leiknum, þá lenti þeim líka saman en þeir voru liðsfélagar í fyrra í Keflavík. Eitthvað segir mér að þeir séu ekki á leiðinni að stofna matarklúbb… Dómararnir þurftu að skoða atvikið á skjá og varð niðurstaðan, málið látið niður falla eftir mikla reikistefnu þar sem Pétur þjálfari Keflvíkinga, var ekki sáttur. Leikurinn hélt áfram og Julio De Asisse átti líklega vörslu tímabilsins þegar hinn stóri og stæðilegi Marek Dolezaj ætlaði að troða! Leikurinn fór á sveif aftur með Grindvíkingum og þeir löbbuðu inn í síðasta stoppið á milli leikhluta, með 64-52 forystu.
Keflvíkingar voru greinilega ekki búnir að gefast upp, komu muninum fljótlega niður í spennustig og leikurinn virtist ætla verða jafn til loka. Fyrrnefndur De Asisse steig þá heldur betur upp, bæði varði hann skot í vörninni og setti tvo flotta þrista. Keflvíkingar reyndu allt það sem þeir áttu en stóru skotin duttu ekki frekar en á stærstum hluta leiksins og þess vegna náðu þeir ekki að ógna að ráði og sanngjarn Grindavíkursigur staðreynd, 74-87.
Julio De Asisse fær nafnbótina maður leiksins hjá blaðamanni, hann var sérstaklega góður í fjórða leikhluta, varði þá skot eins og áður sagði og skoraði mikið hinum megin. Hann endaði með 18 stig og þrjú varin skot. Stigahæstur var Dedrick Basile með 23 stig og gaf auk þess 10 stoðsendingar. Deandre Kane var með 19 stig og 9 fráköst. Daninn Mortensen hafði hægt um sig í seinni hálfleik, bætti engu stigi við þau 16 sem hann hafði sett í fyrri hálfleik en hann tók líka 10 fráköst. Ólafur fyrirliði Ólafsson hefur oft skorað meira en ekki oft tekið fleiri fráköst, 17 kvikindi lágu í valnum hjá kappanum!
Keflvíkingar hittu einfaldlega ekki á sinn besta dag, hafa líklega alltaf hitt betur í vetur en í þessum leik og eftir mjög erfiðan fyrsta fjórðung var brekkan of brött og því fór sem fór. Remy Martin var stigahæstur með 19 stig, Jaka Brodnik setti 16 og fyrirliðinn Halldór Hermannsson setti 14 stig af bekknum.
Keflvíkingar eiga leik inni, mæta Hetti á heimavelli á mánudagskvöld og svo mæta þeir Breiðabliki á útivelli eftir viku. Grindavík mætir Valsmönnum í stórleik umferðarinnar á heimavelli sínum í Smáranum á föstudagskvöld.