Grindavík vann í Ljónagryfjunni. Keflavík lagði nýliðana
NJARÐVÍK-GRINDAVÍK 41-44
Grindavík vann Njarðvík í 1. deild kvenna í gær, 41-44. Leikurinn einkenndist af sterkum vörnum og hrikalega mistækum sóknarleik á báða bóga.
Grindavíkurstúlkur, sem léku á útivelli, byrjuðu betur og hittu ágætlega utan af velli og náðu fimm stiga forskoti fyrir annan leikhluta. Nokkuð jafnræði var með liðunum fram að hálfleik og stóðu leikar 24-30 í hálfleik.
Í þriðja leikhluta hrökk sóknarleikur liðanna í algeran baklás, sérstaklega hjá Grindavík. Þær skoruðu fyrstu körfuna en svo hertu Njarðvíkingar tökin í vörninni. Helga Jónasdóttir var firnasterk undir körfunni og var einráð í fráköstunum ásamt Jamie Woudstra. Njarðvíkurstúlkur voru þó ekki jafn sterkar í sókn en náðu að komast yfir, 34-32, þegar skammt var eftir af fjórðungnum. Grindvíkingar fundu svo loks körfuna á lokasekúndunum og jöfnuðu 34-34 fyrir lokafjórðunginn.
Þar voru Grindvíkingar öllu sterkari og leiddu allan tímann en Ingibjörg Vilbergsdóttir fékk þó færi á að jafna leikinn fyrir Njarðvík á lokasekúndunum. Staðan var 41-44 en þriggja stiga skot Ingibjargar geigaði.
Grindvíkingar voru alls ekki sannfærandi í leiknum miðað við væntingar, en það verður að taka tillit til þess að þær eru með mikið af nýjum mannskap og nýjan þjálfara þannig að leikur þeirra á eflaust eftir að batna þegar á líður.
Njarðvíkurstúlkur sýndu í leiknum hvernig þær gætu strítt stærri félögunum, með baráttu og varnarleik, en þær líða verulega fyrir skort á valmöguleikum í sóknarleiknum.
„Ég er þakklátur fyrir stigin,“ sagði Örvar Kristjánsson, þjálfari Grindavíkur í leikslok. „En ég er alls ekki sáttur við leikinn hjá okkur. Bæði liðin vor alveg úti að skíta í sókninni og við vorum allt of hikandi. Ég hefði orðið brjálaður ef við hefðum tapað!“
Jón Júlíus Árnason, þjálfari Njarðvíkurstúlkna, var auðvitað ekki sáttur við sóknina hjá sínu liði en hann sá marga ljósa punkta. „Stelpurnar voru sterkar í fráköstunum og varnarleikurinn var góður, sérstaklega í seinni hálfleik. Við þurfum hins vegar að passa boltann betur í sókninni en það er bara óöryggi og skortur á sjálfstrausti sem á eftir að lagast.“
KEFLAVÍK-HAUKAR 77-60
Íslandsmeistarar Keflavíkur unnu góðan sigur á nýliðum Hauka, 77-60, á heimavelli sínum í gær.
Leikurinn var jafn til að byrja með þar sem Haukastúlkur héldu í við heimastúlkur og staðan var 20-18 eftir fyrsta leikhluta. Eftir það tóku meistararnir þó stjórnina á vellinum og leiddu 39-28 í hálfleik eftir að hafa spilað góða pressuvörn.
Í 3. leikhluta völtuðu Keflvíkingar svo yfir gestina og fóru inn í lokaleikhlutann með öruggt forskot, 61-44 sem var aldrei ógnað.
Reshea Bristol var besti maður vallarins, en hún skoraði 23 stig. Þá átti Bryndís Guðmundsdóttir góðan dag undir körfunni og tók 17 fráköst auk þess að skora 12 stig.
Anna María Sveinsdóttir sem lék sinn 300 deildarleik í gær skoraði 16 stig og tók 11 fráköst.