Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík vann Þór og hefur tekið forystuna í einvígi liðanna
Danielle Rodriguez brýst í gegn, skorar og fékk víti sem hún nýtti. Hún var frábær í leiknum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 8. apríl 2024 kl. 18:55

Grindavík vann Þór og hefur tekið forystuna í einvígi liðanna

Njarðvík með öruggan sigur í hinni viðureign kvöldsins.

Vorboðinn ljúfi, úrslitakeppnin í körfuknattleik, hófst í kvöld með tveimur leikjum í úrslitakeppni kvenna. Grindavík og Njarðvík áttu heimaleiki, Grindavík á móti Þórskonum frá Akureyri og Njarðvík á móti Val.

Það er skemmst frá því að segja að Suðurnesjaliðin unnu bæði og hafa tekið forystuna í einvígum sínum í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík átti heldur betur harma að hefna gegn Þórskonum en þær síðarnefndu unnu leik liðanna í undanúrslitum VÍS-bikarsins fyrir skömmu.

Það var ekki að sjá á Grindavíkurkonum í byrjun að þær ættu harma að hefna, Þórskonur voru skrefi á undan fyrstu mínúturnar, voru grimmari í fráköstunum og Grindavík í smá vandræðum með að finna leiðina að körfunni og tóku erfið skot. Þegar fyrsti fjórðungur var rúmlega hálfnaður var staðan 9-14 fyrir Þór. Við þrefalda skiptingu gulra kom smá líf í þær og Hekla Eik Nökkvadóttir jafnaði leikinn með þriggja stiga skoti, 16-16 og grindvískir áhorfendur fóru að kannast við sínar dömur en næstu sjö stig voru Norðankvenna, staðan 16-23 fyrir Þór. Grindavík náði að rétta hlut sinn aðeins í lokin og munaði fjórum stigum að honum loknum, 24-28. Munurinn í fráköstunum segir hugsanlega sögu fyrsta fjórðungsins, Þórskonur náðu þremur sóknarfráköstum á móti engu hjá Grindavík og heildar frákastabaráttuna 6-11, segir ekki einhvers staðar að samasemmerki sé á milli frákasta og baráttu?

Allt annað Grindavíkurlið kom til leiks í öðrum fjórðungi, þær fóru að ná sóknarfráköstum og vörnin var mun betri. Leikurinn jafnaðist og þegar tæpar fjórar mínútur lifðu fyrri hálfleiks munaði einu stigi Grindavík í vil, 37-36. Liðin leiddust svo nánast út hálfleikinn en Grindavík þó skrefinu á undan og leiddi með þremur stigum í hálfleik, 47-44.

Danielle Rodriguez var heldur betur á fjölinni sinni í fyrri hálfleik, var komin með 19 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Eve Braslis var komin með 10 stig.

Það var bara eitt lið í upphafi síðari hálfleiks, eftir þrjár og hálfa mínútu tók þjálfari Þórs leikhlé, Grindavík búið að vinna þriðja leikhlutann með 11 stigum, 14-3! Danielle var áfram sjóðandi, bæði hitti fyrir utan og keyrði upp að körfunni, var komin með 27 stig. Vörnin var frábær hjá gulum á þessum tíma og köstuðu þær norðlensku oft boltanum út af. Þegar leikhlutinn var búinn munaði 11 stigum, 74-63. Sarah Mortensen steig heldur betur upp í þriðja leikhluta, klikkaði vart á skoti og tók fráköst, var komin með 20 stig og 9 fráköst en Danielle áfram stigahæst með 31 stig.

Þórskonur voru greinilega ekki búnar að kasta handklæðinu inn í hringinn, náðu að minnka muninn en Grindavík tók þá aftur við sér, leiddar að fyrrnefndum Danielle og Sarah. Ólseigar Þórskonur neituðu samt að gefast upp og þegar þrjár mínútur lifðu leiks munaði ekki nema sex stigum á liðunum, allir vita að þannig munur getur horfið hraðar en ský dregur fyrir sólu. Grindavík náði samt að halda út og landa sigri sem var tiltölulega öruggur þegar öllu er á botninn hvolft.

Danielle og Sarah voru langatkvæðamestar hjá Grindavík, sú fyrrnefnda grátlega nærri flottri þrennu, endaði með 37 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Sarah frá frábær í seinni hálfleik og endaði með 31 stig og 12 fráköst.

Grindavík hefur því tekið forystu í einvíginu, sem heldur áfram á Akureyri á laugardaginn.

Hinn leikur kvöldsins endaði með öruggum sigri Njarðvíkur, lokatölur 96-58. Selena Lott var atkvæðamest Njarðvíkinga með flotta þrennu, skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og gaf sömuleiðis 10 stoðsendingar. Ef þetta er það sem koma skal í þessari rimmu er ljóst að leikirnir verða varla fleiri en þrír.