Grindavík úr leik í Mjólkurbikarnum
Grindavík tók á móti ÍA í Mjólkurbikarnum í gærkvöldi, leikurinn endaði með 2-1 sigri gestanna og Grindvíkingar eru því úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu.
Bjarki Steinn Bjarkarson kom ÍA yfir á 48. mínútu leiksins en Grindvíkingar jöfnuðu á 79. mínútu með marki frá Aroni Jóhannssyni. Aðeins níu mínútum síðar eða á 88. mínútu kom Arnar Már Guðjónsson ÍA yfir en Grindavík náði ekki að bæta öðru marki við í leiknum og 1-2 tap því staðreynd.