Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 27. maí 2004 kl. 22:33

Grindavík tapar í bragðdaufum leik

Grindavík tapaði fyrir Fylki á heimavelli sínum í kvöld, 0-2. Sævar Þór Gíslason og Þorbjörn Atli Sveinsson skoruðu mörk gestanna í seinni hálfleik, en þau komu bæði eftir herfileg mistök í vörn Grindvíkinga.

Leikurinn fór rólega af stað og var fátt markvert á seyði framan af þar sem liðin héldu sig til hlés og voru lítt ógnandi.
Á 15. mínútu slapp Grétar Hjartarson inn fyrir vörn Fylkis, en Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður, hljóp langt út á völlinn og varði skot Grétars laglega.
Stuttu síðar skall hurð nærri hælum Grindvíkinga þegar Sævar Þór komst inn í vítateig heimamanna og átti gott skot á nærstöng, en Albert Sævarsson gerði mjög vel í að verja.
Leikurinn var tíðindalítill eftir það allt þar til skammt var til leikhlés, en þá fékk Gestur Gylfason kjörið tækifæri til að koma Grindavík yfir. Hann fékk eitraða sendingu fyrir markið frá Orra Frey Óskarssyni, en Bjarni í marki Fylkis varði glæsilega.
Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik sem var lítið fyrir augað og virtust liðin rög við að leita fram á völlinn.

Í upphafi seinni hálfleiks virtist aðeins lifna yfir sóknarleiknum án þess þó að þau sköpuðu sér almennileg færi þar til Sinisa Kekic glataði boltanum klaufalega í vörninni og Þorbjörn Atli gaf  inn á Sævar Þór sem tók boltann viðstöðulaust og setti boltann af miklu öryggi í markið.
Eftir markið lifanði yfir sóknarleik Grindvíkinga þar sem Kekic færði sig úr vörninni í framlínuna og Óskar Hauksson kom inná í vinstri bakvörðinn.

Við þessi skipti efldist sóknin en það var á kostnað varnarinnar sem átti eftir að verða þeim dýrkeypt 10 mínútum síðar þegar Óskar átti misheppnaða sendingu yfir völlinn sem lenti á tánum á Sævari Þór á miðsvæðinu. Sævar skeiðaði upp allan völlinn með boltann og komst inn í teiginn þar sem hann sendi góðan bolta inn á markteig þar sem Þorbjörn Atli kom aðvífandi og jók muninn í tvö mörk.

Grindvíkingar settu eftir það mikla pressu á Fylki og áttu góð færi þar sem Ray Anthony Jónsson átti þrumuskot úr Aukaspyrnu af löngu færi og svo þegar Grétar slapp einn í gegn á 79. mín. eftir frábæra sendingu frá Sinisa Kekic. Grétar renndi boltanum framhjá Bjarna Þórði en hann fór naumlega framhjá og þar við sat. Grindvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í sumar og geta kennt varnarmistökum um því að þeir áttu heilt yfir ekki minna í leiknum en Fylkismenn.

Zeljko Sankovic, þjálfari Grindavíkur, sagði tapið mikil vonbrigði. „Við vorum að spila vel í leiknum og misnotum dauðafæri í fyrri hálfleik, en þegar maður missir af svona færi er erfitt að vinna sig upp. Fylkir fengu of mikið út úr mistökum sinna manna, en svona er fótboltinn!“
Zeljko bætti því við að hann og hans menn leggðu sig alla fram um að spila góðan bolta og spáði því að þeim myndi ganga betur á næstunni. „Við erum alltaf að bæta okkur og vinnum hörðum hönum og búumst við enn betra í næstu leikjum.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024