Grindavík tapaði fyrir Fylki
Grindvíkingar töpuðu í kvöld öðrum leik sínum í röð þegar þeir lutu í lægra haldi fyrir Fylkismönnum í Árbænum, 2-0 í 2. umferð Landsbankadeildarinnar. Óhætt er að segja að fátt hafi verið um fína drætti í þessum bragðdaufa leik og hægt að telja færi beggja liða á fingrum annarrar handar. Gunnar Þór Pétursson skoraði fyrra mark Fylkis í fyrri hálfleik og Haukur Ingi Guðnason, fyrrum leikmaður Keflavíkur, það síðari í upphafi síðari hálfleiks. Grindvíkingar voru bitlausir fram á við eins og í fyrsta leiknum en léku þó ágætlega á miðjunni þar sem Lee Sharpe átti nokkrar ágætar rispur. Grindvíkingar eru að loknum tveimur umferðum án stiga í 8. sæti deildarinnar. Hvort langt sé í það að nýr sóknarmaður gangi til liðs við félagið skal ósagt látið en á meðan Grétar Hjartarsson er fjarri góðu gamni er sóknarleikur liðsins bitlaus og tilviljunarkenndur.
Mynd: Lee Sharpe lék ágætlega í kvöld og var bestur í liði Grindvíkinga. Sérstaklega var hann skæður í fyrri hálfleik.
Mynd: Lee Sharpe lék ágætlega í kvöld og var bestur í liði Grindvíkinga. Sérstaklega var hann skæður í fyrri hálfleik.