Grindavík tapaði á Ásvöllum
Grindavík lék gegn Haukum í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á miðvikudag. Haukar komust í þriggja marka forystu en Grindvíkingar gáfust ekki upp og voru nálægt því að jafna í lokin. Lokatölur 3:2 og Grindavík er komið í neðsta sæti deildarinnar.
Fyrri hálfleikur var frekar jafn en á 37. mínútu náðu Haukar að byggja góða sókn sem endaði með frábæru langskoti upp undir þverslána. Algerlega óverjandi fyrir Kelly Lyn O'Brien, markvörð Grindavíkur.
Haukar bættu tveimur mörkum við á skömmum tíma í síðari hálfleik (53' og 59') og voru því komnar með þriggja marka forystu. Þriðja markið var slysalegt, skot úr þröngu færi og Kelly missti hann milli fótanna. Kelly hefði átt að gera betur þarna en hún bætti fyrir þessi mistök sín skömmu síðar með frábærri markvörslu þegar sóknarmaður Hauka fékk dauðafæri inn í markteig Grindavíkur.
Það urðu umskipti á Grindvíkingum við að lenda þremur mörkum undir og Unnur Stefánsdóttir minnkaði muninn fyrir þær á 61. mínútu. Grindvíkingar sóttu stíft en reyndar opnaðist vörn þeirra við það og Haukar komust í nokkrar álitlegar skyndisóknir sem runnu út í sandinn.
Ása Björg Einarsdóttir minnkaði muninn í eitt mark undir lok leiksins (88') og Grindavík sótti af ákafa síðustu mínúturnar en því miður rann tíminn út fyrir þær og mörkin urðu ekki fleiri.
Með tapinu er Grindavík komið í neðsta sæti deildarinnar með átta stig, eins og Augnablik en Augnablik á leik til góða og er með einu marki betri markatölu. HK er í áttunda sæti með níu stig og ÍA er með tíu stig í sjöunda sæti, HK hefur einnig leikið einum leik færra en Grindavík.
Það er ljóst að litlu munar á liðunum sem eru að berjast fyrir sínu sæti í deildinni og það þarf ekki mikið að gerast til að staða liðanna breytist. Grindavík hefur styrkt lið sitt fyrir lokabaráttuna og þær hafa fulla burði til að tryggja sér áframhaldandi sæti í Lengjudeildinni að ári.