Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík stöðvaði Keflavík
Sunnudagur 2. desember 2007 kl. 12:15

Grindavík stöðvaði Keflavík

Grannarimma Grindavíkur og Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna í gærkvöldi sveik engan körfuknattleiksunnanda. Sannkallaður spennuleikur þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu. Helga Hallgrímsdóttir gerði sjö stig í Grindavíkurliðinu í gær en hún gerði jafnframt mikilvægustu körfu leiksins, sigurkörfuna. Staðan var 90-90 þegar Grindvíkingar héldu í sókn. Tiffany Robertson hitti ekki úr stökkskoti sínu í teignum þegar um 6 sekúndur voru til leiksloka en Helga var rétt staðsett, náði frákastinu og lagði boltann í spjaldið og ofan í körfuna. Fyrsti ósigur toppliðs Keflavíkur því staðreynd eftir að hafa unnið átta fyrstu mótsleiki sína.

 

Grindvíkingar höfðu jafnan frumkvæðið í leiknum og leiddu 42-37 þegar blásið var til leikhlés. Í þriðja leikhluta virtust gular mun ákveðnari en Keflvíkingar og náðu að auka muninn upp í 67-59 fyrir fjórða leikhluta.

 

Í síðasta leikhlutanum náðu Keflvíkingar hægt og bítandi að vinna sig inn í leikinn og á kafla virtist sem Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir væri eini leikmaðurinn í Keflavíkurliðinu sem gæti skorað. Eftir því sem spennan færðist yfir leikinn leituðu Keflvíkingar þó meira til TaKeshu Watson sem lék sinn fyrsta leik í nokkurn tíma eftir meiðsli. Watson var þrautagóð á raunastund og af miklu harðfylgi náðu Keflvíkingar að knýja fram framlengingu. Sigurinn hefði auðveldlega getað dottið báðum megin í venjulegum leiktíma en staðan var 78-78 eftir fjóra leikhluta og því framlengt.

 

Keflvíkingar gerðu fyrstu stig framlengingarinnar og oft vill það verða að það lið sem skorar fyrst í framlengingu fer með sigur af hólmi. Keflavík komst í 84-88 en Grindvíkingar gáfust ekki upp og jöfnuðu svo metin í 90-90. Þegar 11 sekúndur voru til leiksloka misnotaði Rannveig Randversdóttir tvö víti fyrir Keflavík. Tiffany Robertson náði frákastinu og kastaði boltanum fram. Hún fékk hann til baka og vippaði sér upp í stökkskot sem geigaði. Helga Hallgrímsdóttir var rétt staðsett, náði sóknarfrákastinu og lagði boltann í spjaldið og ofan í körfuna og kom Grindavík í 92-90.

 

Keflavík náði ekki að nýta sér þær fáu sekúndur sem voru eftir til þess að jafna eða vinna leikinn og fögnuðu Grindvíkingar vel og innilega þessum glæsta sigri sínum. Enginn þó meir en Helga Hallgrímsdóttir sem í gær gerði sína fyrstu sigurkörfu á ferlinum.

 

Tiffany Robertson gerði 30 stig fyrir Grindavík í gær og tók 20 fráköst. Joanna Skiba bætti við 29 stigum og 7 stoðsendingum en Helga hetja Hallgrímsdóttir gerði 7 stig í leiknum og tók 9 fráköst.

 

Hjá Keflavík var TaKesha Watson atkvæðamest með 30 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar en henni næst kom Pálína Gunnlaugsdóttir með 18 stig og 7 fráköst.

 

Tölfræði leiksins

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ [email protected]Helga í baráttunni við Marín Karlsdóttur í leiknum í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024