Grindavík slapp fyrir horn gegn Val
Grindavík hafði 10 stiga sigur í Vodafonehöllinni í gærkvöldi eftir að hafa elt nánast allan leikinn. Valsmenn byrjuðu leikinn betur og höfðu frumkvæðið framan af. Grindavík náði nokkrum sinnum að komast yfir en tókst ekki að halda því fyrr en í fjórða leikhluta. Þá kom forskotið sem hélt og höfðu þeir á endanum 10 stiga sigur, 83-73.
Stigahæstur í liði Grindavíkur var Giordan Watson með 23 stig og 6 stoðsendingar en næstir voru J'Nathan Bullock með 19 stig og Páll Axel Vilbergsson með 14 stig. Í liði Vals var Igor Tratnik stigahæstur með 22 stig en næstir voru Darnell Hugee með 19 stig og 9 fráköst og Agust Magnus Bracey með 11 stig.
Valsmenn mættu virkilega vel stemmdir til leiks og náðu að skora fyrstu 6 stig leiksins áður en gestirnir svöruðu. Valsmönnum gekk vel að stoppa sóknarmenn Grindavíkur og stóðu vaktina undir körfunni virkilega vel á fyrstu mínútunum. Þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður höfðu Valsmenn náð 11 stiga forskoti, 16-5. Grindvíkingar sóttu á þegar leið á leikhlutann og höfðu náð að minnka muninn niður í 7 stig þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta, 26-19.
Það var allt annað Grindvíkurlið sem mætti inná í annan leikhluta og þeir minnkuðu muninn hratt niður. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta höfðu þeir komist yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 31-32. Þeir höfðu því skorað 13 stig gegn fyrstu 5 stigum Vals. Giordan Watson fór fyrir sínum mönnum og setti 15 stig á fyrstu 14 mínútum leiksins, þar af öll þrjú skotin sín fyrir utan þriggja stiga línuna ofaní. Ágúst Björgvinsson tók þá leikhlé til þess að koma sýnum mönnum aftur inní leikinn. Stuttu seinna kom J'Nathan "Valtarinn" Bullock í layup og skildi Darnell Hugee eftir í góflinu. Hann fór þó ekki jafn illa og Bartolotta og þurfti aðeins nokkrar mínútur í hvíld. Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínútur en þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var hnífjafnt, 37-37. Valsmenn áttu þá virkilega góðan kafla og höfðu náð 9 stiga forskoti þegar 40 sekúndur voru eftir, 47-38. Grindvíkingar skoruðu svo seinustu 4 stig leikhlutans og því munaði 5 stigum þegar flautað var til hálfleiks, 47-42.
Stigahæstur í lið Vals í hálfleik var Igor Tratnik með 16 stig en næstir voru Darnell Hugee með 13 stig og Agust Magnus Bracey með 6 stig. Í liði Grindavíkur var Giordan Watson með 17 stig, J'Nathan "Valtarinn" Bullock með 10 stig og Ómar Örn Sævarsson með 4 stig.
Hvorugt liðið tók af skarið í upphafi seinni hálfleiks og liðin skiptust á að skora. Þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu bæði lið skorað 5 stig og stóðu tölur, 52-47. Þegar þriðji leikhluti var rétt rúmlega hálfnaður höfðu Valsmenn náð forskotinu upp í 8 stig, 54-48 en Grindvíkingar voru langt frá því að vera að sýna sitt rétta andlit. Grindavík var hins vegar ekki lengi að koma sér aftur inní leikinn með 8 stigum í röð og voru komnir yfir þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leikhlutanum, 54-56. Liðin skiptust á að leiða það sem eftir var leikhlutans en Ómar Örn Sævarsson skoraði seinustu 2 stigin um leið og flautað var til loka hans, 61-62.
Ennþá voru liðin að skiptast á að skora í upphafi fjórða. Þegar tvær mínútur voru liðnar höfðu Valsmenn 2 stiga forskot, 68-66. Páll Axel setti flottan þrist þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar og náði stærsta forskoti Grindavíkur í leiknum fram að því, 68-73. Igor Tratnik fékk sína fimmtu villu þegar fjórði leikhlut var hálfnaður en hann var þá stigahæsti maður Vals með 22 stig. Í næstu sókn fór Agust Magnus Bracey útaf með sína fimmtu villu. Ágúst Björgvinsson tók þá leikhlé fyrir Valsmenn sem voru ennþá 5 stigum undir, 68-73. Varnarleikur Grindvíkinga var kominn í sitt gamla form og lokuðu algjörlega á Val sem hafði ekki skorað í 7 mínútur þegar Ragnar Gylfason keyrði í gegnum vörn þeirra og minnkaði muninn aftur í fimm stig, 70-75. Ólafur Ólafsson setti svo niður þrist í næstu sókn og svo gott sem gerði út um leikinn, 70-78 og tæplega þrjár mínútur eftir af leiknum. Valsmenn tóku aftur leikhlé þegar ein mínúta og 40 sekúndur voru eftir af leiknum, 73-80. Valsmenn fengu hvert tækifærið á fætur öðru í næstu sókn en allt kom fyrir ekki og Jóhann Árni tryggði Grindavík sigurinn á línunni í næstu sókn. Grindavík hafði því á endanum 10 stiga sigur, 73-83.
Umfjöllun: [email protected]
Ljósmynd: [email protected]