Grindavík skrifar undir fjögurra ára samning við Jóa útherja
Knattspyrnudeild Grindavíkur skrifaði undir fjögurra ára samning við íþróttavöruverslunina Jóa útherja í gær. Um tímamótasamning er að ræða en í fyrsta skipti verður boðið upp á heildar Grindavíkurlínu af íþróttavörum en um er að ræða búninga, ýmsar tegundir af æfingagöllum, upphitunargalla, úlpur og ýmislegt fleira allt merkt Grindavík og í öllum stærðum á afar góðu verði. Íþróttafatnaðurinn kemur frá hollenska íþróttavöruframleiðandanum Stanno sem hefur sérhæft sig í að framleiða knattspyrnuvörur fyrir yngri flokka og grasrótarstarf en þetta merki hefur farið sigurför um Holland og er að ryðja sér til rúms á Evrópumarkaðinum og víðar. Allir flokkar Grindavíkur, frá þeim yngstu og upp í meistaraflokka karla og kvenna, verða í búningum frá Stanno næstu fjögur árin.
Íþróttavöruverslunin Jói útherji opnaði 1999 og hefur lengst af verið sérhæfð knattspyrnuverslun en á síðasta ári var búðin stækkuð um helming og býður einnig upp á körfuknattleiks- og handknattleiksvörur. Valdimar P. Magnússon, framkvæmdastjóri Jóa útherja, segir að Stanno merkið sé orðið það þriðja stærsta í Englandi og er víða að ryðja sér braut enda þykir verðið hagstætt og varan traust og góð og markaðsstarfið hefur fyrst og fremst verið í grasrótinni.
„Við ætlum að þjónusta Grindvíkinga mjög vel og bjóðum upp á alla línuna í Grindavíkuríþróttavörum og fyrir allan aldur. Þetta er fjögurra ára samningur. Við ákváðum að fara í samstarf við Grindavík vegna þess að þetta er traust félag og þar er unnið gott grasrótarstarf sem einkennir einmitt starfsemi Stanno,“ segir Valdimar.
Eiríkur Leifsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar, segir að það hafið komið deildinni skemmtilega á óvart að Jói útherji hafi valið Grindavík sem samstarfsaðila. Miklu máli skipti að hér er boðið upp á heila línu af íþróttafatnaði sem verður á hagstæðu verði og þjónusta hjá Jóa útherja er eins og hún gerist best.
Breyting á fyrirkomulagi yngri flokanna – GULI DAGURINN á fimmtudaginn
Sú breyting verður varðandi yngri flokka knattspyrnudeildarinnar frá og með næstu áramótum að iðkendur í 5., 6. og 7. flokki drengja og stúlkna þurfa að kaupa sinn eigin Grindavíkurbúning, stuttbuxur og sokka til að nota í leikjum líkt og tíðkast hjá nánast öllum öðrum félögum á Íslandi, sem iðkendur eiga þá sjálfir. Í 3. og 4. flokki mun félagið skaffa búninga en iðkendur þurfa sjálfir að kaupa stuttubuxur og sokka. Að sögn Eiríks er því tilvalið að skella Grindavíkurbúningnum í jólapakkannn í ár.
Næsta fimmtudag frá kl. 16 til 20 munu sölumenn frá Jóa útherja vera í Gula húsinu með sérstakan söludag, GULA DAGINN, þar sem boðið verður upp á góðan afslátt af Grindavíkurvörunum. Þá geta Grindvíkingar komið í Gula húsið og máta Grindavíkurvörurnar og lagt inn pöntun. Grindavíkurvörurnar verða svo til sölu í Jóa útherja.