Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík skellti Stólunum fyrir norðan
Fimmtudagur 26. febrúar 2015 kl. 22:28

Grindavík skellti Stólunum fyrir norðan

Leikjum kvöldsins í Dominos deild karla er nú lokið en óhætt er að segja að dregið hafi til tíðinda.

Grindvíkingar gerðu heldur betur góða ferð norður í land og skelltu liði Tidastóls á erfiðasta heimavelli landsins. en fyrir leikinn hafði ekkert lið sótt gull í greipar Sauðkrækinga í Krókódílasíkinu á yfirstandandi tímabili en auk þess voru norðanmenn á þriggja leika sigurgöngu. Um leið færðu Grindvíkingar KR-ingum deildarmeistartitilinn þar sem KR kláraði Skallagrím í Borgarnesi og getur Tindastóll því ekki náð KR að stigum sökum úrslita í innbyrðisviðureignum liðanna.

Grindvíkingar leiddu nær allan leikinn í kvöld og höfðu að lokum 10 stiga sigur, 84-94.

Stigahæstur í liði Grindvíkinga var Ólafur Ólafsson með 21 stig en næstir honum voru Rodney Alexander með 19 stig og 10 fráköst og Jón Axel Guðmundsson með 17 stig og 8 stoðsendingar.

Darrel Lewis og Myron Dempsey báru uppi lið Tindstóls með 25 og 19 stig.

Grindvíkingar eru nú búnir að vinna þrjá leiki í röð í deildinni og mæta liði Keflavíkur í næstu umferð í Röstinni, en Keflvíkingar eiga leik í 19. umferð annað kvöld gegn Fjölni.

Njarðvíkingar misstu lið Hauka frammúr sér í deildinni á stigamun en liðin mættust í Ljónagryfjunni. Haukar voru mun grimmari í fyrri hálfleik og náðu 13 stiga forskoti eftir 1. leikhluta sem þeir létu aldrei af hendi og sigldu nokkuð öruggum sigri heim í Hafnarfjörðinn. Lokatölur 78-100.

Njarðvík var fyrir leikinn í kjörstöðu til að festa sig í sessi í hópi fjögurra efstu liða en með tapi kvöldsins detta þeir niður í 5. sæti með jafnmörg stig og Haukar og Stjarnan.

Stefan Bonneau og Mirko Stefan Virijevic voru einu leikmenn Njarðvíkur sem spiluðu á parinu í kvöld en Bonneau endaði með 40 stig og Mirko daðraði við tvennuna með 19 stig og 9 fráköst.

Haukur Óskarsson var stigahæstur Hauka með 24 stig og 6 stoðsendingar.

Njarðvíkingar mæta Skallagrím í næstu umferð í Borgarnesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024