Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík sigrar eftir góðan endasprett
Laugardagur 20. mars 2004 kl. 18:08

Grindavík sigrar eftir góðan endasprett

Grindvíkingar unnu frækinn sigur, 99-84, á nágrönnum sínum úr Keflavík í dag. Leikurinn var sá fyrsti í undanúrslitarimmu liðanna og fer sá næsti fram á mánudaginn.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur þar sem heimamenn náðu frumkvæðinu í upphafi. Sóknarleikur Keflvíkinga virkaði stirður en Darrel Lewis og fyrirliðinn Páll Axel léku á als oddi og skoruðu nánast að vild fyrir Grindavík.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-19 og Keflvíkingar þurftu að taka sig á. Þeir mættu ákveðnari til leiks í annan leikhluta og ekkert var gefið eftir. Þeir héldu í við Grindavík án þess þó að minnka muninn verulega. Munurinn var minnstur 5 stig og var staðan í leikhléi 47-41 heimamönnum í vil.

Falur og Guðjón hafa eflaust messað duglega yfir sínum mönnum í hálfleik því þeir mættu tvíefldir út á völlinn. Gunnar Einarsson jafnaði með 3ja stiga körfu eftir tvær og hálfa mínútu, 52-52, og komust Keflvíkingar yfir skömmu síðar.
Nick Bradford átti skínandi góðan leik á þessum kafla og fór fyrir sínum mönnum í sókninni og lék Grindvíkinga einnig grátt á hinum enda vallarins.
Leikurinn var mjög jafn eftir þetta og skiptust liðin á að hafa forystuna. Gestirnir áttu þó góðan endasprett sem tryggði þeim sex stiga forskot, 64-70, fyrir lokasprettinn.

Enn ein kaflaskilin urðu í síðasta leikhlutanum þegar útlendingaher Grindvíkinga fékk að leika lausum hala. Jones, Lewis og Rogers fóru á kostum og söxuðu jafnt og þétt á forskot Keflvíkinga. Eftir rúmlega fjögurra mínútna leik höfðu þeir jafnað 80-80 og á næstu mínútum gerðu þeir út um leikinn þeir skoruðu 13 stig á móti einu og höfðu því 12 stiga forskot þegar mínúta var eftir.
Keflvíkingar áttu ekkert svar við leik Grindvíkinga og gengu þeir því á lagið og juku muninn í 15 stig áður en yfir lauk.

Friðrik Ingi var ánægður með sigurinn en sagðist þó oft hafa séð sína menn spila betur. „Það löguðust ýmsir hlutir hjá okkur í þriðja leikhlutanum og við komumst inn í leikinn aftur. Við fengum ákveðinn meðbyr með því og á sma tíma virtist vindurinn úr þeim. Nick Bradford var búinn að spila stórkostlega hjá þeim, en hann virtist vera farin að lýjast undir lokin og þegar aðrir voru ekki að finna sig náðum við að keyra yfir þá.“

Falur Harðarson var öskuillur með sína menn í leikslok. „Þetta var bara ömurlegt! Við gáfum þeim þennan leik. Við hættum gjörsamlega í fjórða leikhluta og fórum bara að horfa á þá spila. Þegar þurfti á mönnum að halda fóru þeir bara í feluleik og úrslitin eru ekki tími til slíks.“
Fannar Ólafsson meiddist á ökkla á lokamínútunni og er ekki vitað hve alvarleg sú meiðsl eru. Falur tók af öll tvímæli og harðneitaði því að þeir fengju sér nýjan Kana jafnvel þótt Fannar verði óleikfær.

 

Myndasyrpa úr leiknum hér!

Hér má finna tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024