Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík sigraði Njarðvík - Myndir
Dagur Kár spilaði vel í kvöld
Fimmtudagur 10. nóvember 2016 kl. 22:09

Grindavík sigraði Njarðvík - Myndir

-Keflavík tapaði gegn Skallagrími

Grindavík fór með sigur af hólmi í Dominos deild karla í kvöld þegar liðið fékk Njarðvík í heimsókn í Mustad höllina og voru lokatölur 95-83. Keflavík mætti Skallagrími í Borgarnesi og tapaði 80-71. Myndir úr leik Grindavíkur og Njarðvíkur má sjá hér að neðan.

Grindavík 95 - 83 Njarðvík
Framan af var leikurinn nokkuð spennandi en Grindavík hafði þó forystuna frá lokum fyrsta fjórðungs og þar til í lok þess þriðja. Þá áttu Njarðvíkingar flottan kafla og náðu að koma sér yfir, en staðan fyrir síðasta leikhlutann var 68-70. Grindvíkingar voru mun sterkari í fjórða leikhluta, spiluðu góða vörn og fátt virtist ganga upp hjá Njarðvík. Sérstaklega sóknarlega þar sem þeir voru að klúðra skotum af stuttu færi og missa boltann klaufalega. Grindvíkingar nýttu sér það og skoruðu á þá í staðinn sem skilaði þeim 12 stiga sigri, 95-83.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólafur Ólafsson var sáttur með sigurinn og sagðist ánægður með hvað liðið hélt orkunni út allan leikinn. „Ég er ánægður með sigurinn og hvernig við komum til baka. Við náðum að halda þessari orku sem við höfðum allan leikinn. Við lögðum upp með að reyna að hægja á Bonneau, sem er erfitt, því hann er mjög hraður og góður leikmaður. Við ætluðum að stoppa þriggja stiga skotin þeirra, stíga þá vel út og mæta þeim af hörku. Við gerðum það í dag og uppskárum sigurinn út frá því,“ sagði Ólafur eftir leikinn í kvöld.

Lewis Clinch og Ólafur voru góðir og settu skot á mikilvægum tímapunktum ásamt því að vera öflugir í fráköstunum. Clinch skoraði 21 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Ólafur skoraði 18 stig, tók 13 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Ómar Örn Sævarsson skoraði 10 stig og tók 10 fráköst.

Hjá Njarðvíkingum voru Stefan Bonneau og Logi Gunnarsson báðir með 20 stig en Logi var einnig með 6 fráköst og Bonneau með 4 stoðsendingar. Jóhann Árni Ólafsson skoraði 13 stig og reif niður 9 fráköst.

Tölfræði úr leik Skallagríms og Keflavíkur má sjá hér.