Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Grindavík sigraði Íslandsmeistarana í framlengingu
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 10:52

Grindavík sigraði Íslandsmeistarana í framlengingu

Heil umferð fór fram í Dominos deild kvenna í gærkvöldi. Grindvíkingar komu sterkar til baka og lönduðu sterkum heimasigri gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Snæfells í framlengdum leik, 69-66. Keflavík sigraði Val í spennandi leik í TM höllinni, 84-81, og Njarðvíkingar grúttöpuðu gegn sterku liði Skallagríms, 85-52. Hér að neðan má sjá myndir úr leik Grindavíkur og Snæfells sem fram fór í Mustad höllinni.

 

Public deli
Public deli

Grindvíkingar mættu ákveðnar til leiks og greinilega hungraðar í sigur eftir slakt gengi í síðustu leikjum. Þegar ein mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var staðan 23-6 og virtist fátt ganga upp hjá Snæfelli. Þær vöknuðu þó til lífsins í öðrum leikhluta, skelltu í svæðisvörn, pressuðu og bættu sóknarleik sinn. Bæði lið voru mögulega með spennustigið í hærra lagi því mikið var um klaufalega tapaða bolta. Staðan í hálfleik var 30-25. Seinni hálfleikur var mun jafnari en Snæfell skrefinu á undan þar til í lokin þegar Grindvíkingar söxuðu á forskotið og jöfnuðu að lokum með þriggja stiga körfu frá Ashley Grimes sem tryggði þeim framlengingu. Grindavík var örlítið sterkari í framlenginguni með Grimes í fararbroddi og knúðu fram þriggja stiga sigur, 69-66. Lágt stigaskor miðað við framlengdan leik, sem sýnir að skotnýting liðanna var slök og mikil áhersla á varnarleik.

Stigahæst hjá Grindavík var Ashley Grimes, með 24 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir var með 13 stig og 10 fráköst. Hjá Snæfelli var Pálína María Gunnlaugsdóttir með 17 stig, 7 fráköst og 4 stolna bolta og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 16 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar.

Í Sláturhúsinu sigraði Keflavík Val, 84-81, í jöfnum leik þar sem sigurinn hefði geta dottið hvoru megin sem var. Emelía Ósk Gunnarsdóttir skilaði ótrúlegum tölum miðað við spilatíma, en hún skoraði 21 stig, tók 7 fráköst og stal 2 boltum á aðeins 13 mínútum. Hún skoraði líka úr 82% skota sinna, frábær nýting. Dominique Hudson skoraði 26 stig, tók 9 fráköst og stal 3 boltum. Hjá Vali var Mia Loyd sterkust með 28 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar og Guðbjörg Sverrisdóttir var með 12 stig og 4 fráköst.

Njarðvíkingar steinlágu gegn Skallagrími í Borgarnesi, 85-52. Vörn Skallagríms var öflug þar sem Njarðvík hitti aðeins úr 19 skotum í öllum leiknum, ef frá eru talin víti. Carmen Tyson-Thomas var aðeins með 13 stig í leiknum en fyrir þennan leik var hún með að meðaltali 42 stig í leik. Tyson-Thomas reif þó niður 16 fráköst og gaf 2 stoðsendingar í leiknum. María Jónsdóttir var með 9 stig og 9 fráköst. Hjá Skallagrími var Tavelyn Tillman með 26 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Ragnheiður Benónísdóttir var með 10 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.