Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík og Njarðvík töpuðu sínum leikjum
Athygli vekur að Marc McAusland, einn besti miðvörður Lengjudeildarinnar, hefur ekki leikið með Njarðvíkingum í síðustu þremur leikjum – leikjum sem Njarðvík hefur aðeins náð einu stigi úr. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 16. júlí 2023 kl. 20:29

Grindavík og Njarðvík töpuðu sínum leikjum

Grindavík og Njarðvík töpuðu bæði í leikjum Lengjudeildar karla í knattspyrnu í dag. Grindvíkingar öttu kappi við Gróttu á Seltjarnarnesi en Njarðvík mætti botnliði Ægis í Þorlákshöfn.

Grindvíkingum hefur gengið bölvanlega í fjarveru Óskars Arnar Haukssonar en hann kom inn á og lék síðustu mínúturnar í dag.

Grótta - Grindavík (2:0)

Grótta komst yfir snemma leiks með marki úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot Grindvíkinga (6').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar settu ágætis pressu á Gróttu eftir markið og sköpuðu sér hættuleg færi en þeim virtist fyrirmunað að skora og vörn Gróttumanna hélt út fyrri hálfleikinn.

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn betur en eftir því sem leið á leikinn fóru Grindvíkingar að sækja af ákafa. Það má segja að Grótta hafi verið í nauðvörn síðustu mínúturnar en þeir náðu að gera út um leikinn með hraðri sókn í blálokin. Grindavík virtist hafa náð að stoppa sóknina en Gróttumaður vann boltann af varnarmanni og sendi inn á Grindvíkinginn fyrrverandi, Hilmar Andew McShane, sem gerði vel að klára framhjá Aroni í marki Grindavíkur (90'+1).

Með sigrinum fer Grótta upp fyrir Grindavík sem er komið í fimmta sæti deildarinnar.


Oumar Diouck hefur tekið við fyrirliðabandinu hjá Njarðvík en hann náði ekki að setja mark sitt á leikinn í dag.

Ægir - Njarðvík (1:0)

Njarðvíkingar voru talsvert meira ógnandi en það voru Ægismenn sem komust yfir með marki eftir hornspyrnu. Markið má alfarið skrifa á slakan varnarleik Njarðvíkur en markaskorari Ægis stóð nánast kyrr þegar hornið var tekið og virtist þurfa lítið að hafa fyrir því að skalla í netið (35'). Hann hoppaði ekki einu sinni upp í boltann, stóð bara eins og steinn í miðjum markteignum án þess að varnarmenn Njarðvíkur kæmu nokkrum vörnum við.

Þrátt fyrir að eiga nokkur dauðafæri náðu Njarðvíkingar ekki að skora en þeir sóttu mjög stíft í seinni hálfleik. Ægismenn vörðust ágætlega og sóttu hratt þegar færi gáfust og voru nærri því að auka forystuna alla vega í tvígang þegar þeir komust í gegn en Njarðvík slapp fyrir horn á síðustu stundu.

Staða Njarðvíkinga er ekki góð í deildinni. Liðið situr í fallsæti og sögur um innanbúðavandamál verða sífellt háværari. Kannski er augljósasta dæmið að fyrirliðinn Marc McAusland hefur ýmist vermt bekkinn eða ekki verið í hóp í síðustu leikjum. Félagsskiptaglugginn opnar í vikunni og spurning hvort hann sé á förum frá félaginu og jafnvel búinn að spila sinn síðasta leik fyrir þá grænklæddu.


Leikina má sjá í spilaranum hér að neðan.