Grindavík og Leiknir gerðu jafntefli
Grindavík og Leiknir gerðu jafntefli í stórskemmtilegum leik á Grindavíkurvelli í gær. Grindavík fékk dauðafæri í lok leiks en markvörður Leiknis átti stórleik og varði vel trekk í trekk.
Leikurinn í gær bauð upp á góða skemmtun, hann var jafn og bæði lið fengu sín færi en markverðir beggja liða voru á tánum og vörðu hvað eftir annað vel.
Það var á 11. mínútu að fyrra markið kom þegar Leiknismenn náðu góðri sendingu inn fyrir vörn Grindvíkinga þar sem leikmaður Leiknis tók hann viðstöðulaust og smellti í netið, algerlega óverjandi fyrir Vladan í marki Grindvíkinga.
Grindvíkingar settu mikla pressu á Leiknismenn eftir markið og á 17. mínútu skoraði Guðmundur Magnússon flott mark þegar hann kastaði sér fram og skallaði sendingu frá Elias Tamburini í fjærhornið, tvö glæsileg mörk komin og staðan var 1:1 eftir stórskemmtilegan fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki síður spennandi, bæði lið fengu mörg færi en það voru markverðir liðanna sem voru menn leiksins í gær, þeir sýndu ítrekað glæsilegar markvörslur. Ekkert mark var skorað í seinni hálfleik en þó fengu Grindvíkingar gott færi til að landa sigri í blálokin þegar Oddur Ingi Bjarnason fékk boltann einn gegn markverði en markvörður Leiknis varði vel.
Þetta var alvöru leikur, mikil harka en fullt af færum og flottum fótbolta. Heimamenn voru grimmir enda fengu þeir að líta gula spjaldið sex sinnum, þar af var Alexandar Veigari sýnt það tvisvar og var rekinn af velli á 1. mínútu uppbótartíma.
Með jafnteflinu hækkaði Grindavík sig um eitt sæti í Lengjudeildinni og er komið í sjötta sæti. Þeir mæta Fram næst á útivelli, leikurinn fer fram á mánuag klukkan 19:15.