Grindavík og KR mætast í stórleik kvöldsins í DHL-Höllinni
Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Bein textalýsing verður hér á Karfan.is frá viðureign Njarðvíkur og Þórs í Ljónagryfjunni og KR TV verður með beina netútsendingu frá toppslag KR og Grindavíkur í DHL-Höllinni. Í Ásgarði mætast svo Stjarnan og Fjölnir og Hamar tekur á móti Skallagrím í Hveragerði.
Með sigri í kvöld geta Grindvíkingar enn frekar saxað á forystu Keflavíkur og KR í deildinni en liðin á toppnum hafa bæði 20 stig en Keflavík á leik til góða á KR. Grindavík hefur 16 stig í 3. sæti deildarinnar en leikir KR og Grindavíkur hafa verið hreint frábær skemmtun í vetur. Liðin mættust í deildarkeppninni þann 18. október þar sem Grindavík hafði sigur 109-100 í hröðum og skemmtilegum leik. Íslandsmeistarar KR náðu þó að svara fyrir sig í 16 liða úrslitum Lýsingarbikarsins þegar þeir slóu Grindavík úr keppni 104-103 í hádramatískum leik. Körfuknattleiksunnendur fara því með töluverðar væntingar í DHL-Höllina í kvöld.
Í Ljónagryfjunni mætast Njarðvíkingar og Þór Akureyri en Njarðvík er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 14 stig en Þór hefur 8 stig í 10. sæti deildarinnar. Njarðvíkingar fóru með öruggan 73-101 sigur þegar liðin mættust á Akureyri í upphafi leiktíðar þar sem Brenton Birmingham sallaði niður 20 stigum, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.