Grindavík og Keflavík unnu bæði
Grindvíkingar komu sér úr fallsæti með fræknum útisigri á Fylki, 2-3, í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Á meðan unnu Keflvíkingar öruggan sigur á Fjölnismönnum á Sparisjóðsvellinum, 3-1.
Grindvíkingar höfðu verið hálf-lánlausir það sem af er sumri og fengið lítið út úr leikjum sínum í deildinni. Þeir voru á botninum ásamt Fjölni með fjögur stig eftir sjö leiki. Það blés ekki byrlega fyrir þá í Árbænum í kvöld því þeir lentu undir strax í byrjun leiks þegar Ingimundur Níels Óskarsson skallaði í markið framhjá Óskari Péturssyni í marki Grindavíkur. Eftir það skellti Óskar hins vegar í lás og átti stórleik þar sem hann varði vel hvað eftir annað.
Staðan var 1-0 í hálfleik en gestirnir gulklæddu voru ekki lengi að ná stjórn á leiknum í seinni hálfleik. Jóhann Helgason jafnaði leikinn með glæsiskoti af löngu færi og Scott Ramsey bætti um betur þegar hann kom sínum mönnum yfir með laglegu skoti úr vítateig eftir þunga sókn.
Óskar stóð sína pligt í markinu og varði eins og berserkur á meðan Grindvíkingar héldu sig til baka, en rothöggið kom tíu mínútum fyrir leikslok þegar Gilles Ondo slapp innfyrir vörn Grindvíkinga og skoraði þriðja markið.
Fylkismenn náðu þó að hleypa nokkurri spennu í leikinn með marki Alberts Ingasonar á lokamínútu leiksins en þar við sat og Grindvíkingar eflaust glaðir við að komast upp úr fallsæti.
Á Sparisjóðsvellinum í Keflavík var ekki mikil spenna þar sem heimamenn höfðu talsverða yfirburði yfir botnliði Fjölnis. Keflvíkingar komust í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Magnúsi Matthíassyni og Magnúsi Þorsteinssyni og
Haukur Ingi Gunnarsson rak síðasta naglann í kistu Fjölnis á 82. mín eftir laglega sókn.
Fjölnismenn klóruðu þó í bakkann með marki úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok en ógnuðu aldrei sigri.
Eftir leikina er Keflavík í fimmta sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og KR og Fylkir í 3.-4. sæti en ögn lakari markatölu. Grindvíkingar fóru með sigrinum upp í níunda sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.
VF-mynd/Páll Orri Pálsson: Keflvíkingar fagna einu marka sinna í kvöld