Grindavík og Keflavík sóttu stig á útivelli
Fjórða umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu var leikin í gær að undanskildum leik Njarðvíkur og ÍBV sem fer fram í dag. Grindvíkingar sóttu Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn og Keflavík hélt norður fyrir heiðar og lék gegn Þór á Akureyri.
Afturelding - Grindavík 1:1
Afturelding fékk dæmda vítaspyrnu snemma leiks en Ingólfur Hávarðsson, sem stóð á milli stanganna hjá Grindavík, varði slaka spyrnu Arons Elís Sævarssonar.
Talsvert meira líf var í heimamönnum en vörn Grindavíkur var þétt og skyndisóknir þeirra skæðar og eftir markalausan fyrri hálfleik kom Dagur Ingi Hammer Gunnarsson Grindvíkingum yfir (55') eftir eina slíka.
Grindavík hélt þó ekki forystu lengi og Afturelding jafnaði á 61. mínútur.
Grindvíkingar hafa gert jafntefli í síðustu þremur leikjum og ennþá í leit að fyrsta sigrinym.
Þór - Keflavík 1:1
Þórsarar höfðu örlítið betri tök á leiknum í upphafi en Keflvíkingar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn. Keflavík uppskar mark skömmu fyrir leikhlé þegar Sami Kamel átti góða sendingu inn fyrir vörn heimanna á Mamadou Diaw sem afgreiddi boltann fagmannlega framhjá markverði Þórs (40').
Rétt áður en blásið var til hálfleiks komst Dagur Ingi Valsson einn á móti markmanni en Aron Birnir Stefánsson gerði vel og náði til boltans.
Leikurinn snerist mest um mikla baráttu liðanna en þegar tók að líða að lokum leiksins jöfnuðu heimamenn þegar boltinn féll fyrir fætur Árna Elvars Árnasonar rétt utan vítateigs Keflavíkur og hann náði undarlegu skoti sem fór í netið alveg út við stöng (79').
Fleiri urðu mörkin ekki og Keflavík hefur fengið fjögur stig úr tveimur síðustu leikjum sínum.
Leikina má sjá í spilurunum hér að neðan.