Grindavík og HK gerðu jafntefli
Grindavík og HK, topplið 2. deildar kvenna, mættust í Kópavogi í gær. Eins og við var að búast var þetta hörkujafn og spennandi leikur tveggja bestu liða deildarinnar. Hvorugu liði tókst að skora svo 0:0 jafntefli var niðurstaðan.
Grindavík er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir HK sem hefur lokið leik í mótinu. Grindvíkingar eiga hins vegar tvo leiki eftir, gegn Fram og Hamar, og eiga því ágætis möguleika á að standa uppi sem sigurvegarar deildarinnar.
Sameinað lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis er í þriðja sæti, fjórum stigum eftir Grindavík en eiga þrjá leiki eftir. Fari hins vegar allt á versta veg og Grindavík tapi báðum sínum leikjum á meðan Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vinnur alla sína þá gætu Grindavíkurstelpur endað í þriðja sæti.