Grindavík og Afturelding skildu jöfn
Grindavík og Afturelding gerðu markalaust jafntefli á Stakkavíkurvelli í gær í fjórðu umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu. Þetta var mikill baráttuleikur tveggja jafnra liða en Grindavík og Afturelding eru jöfn að stigum um miðja deild.
Það voru heldur betur stálin stinn sem mættust í gær, hart var tekist á og litu nokkur gul spjöld dagsins ljós í leiknum en mörkin létu standa á sér.
Tímabilið hefur farið ágætlega af stað hjá Grindavík, í Lengjudeildinni eru þær með fimm stig og aðeins tapað einum leik, gert tvö jafntefli og unnið einn. Þá eru Grindvíkingar komnar áfram í sextán liða úrslit Mjólkurbikars kvenna og mæta ÍBV í Eyjum um næstu helgi.
Meðfylgjandi eru myndir sem Petra Rós Ólafsdóttir tók í leiknum í gær.