Grindavík náði í stig á Hlíðarenda
Grindvíkingar heimsóttu Valsmenn á Hlíðarenda fyrr í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu og náðu sér í dýrmætt stig í hnífjafnri deild en lokatölur urðu 1-1.
Valsmenn voru örlítið betri aðilinn í fyrri hálfleik en Grindvíkingar skoruðu skömmu fyrir leikhlé þegar Magnús Björgvinsson skoraði með skalla eftir undirbúning frá Alexander Magnússyni sem lék upp að endamörkum og sendi fyrir á Magnús sem skallaði í mitt markið.
Það tók Valsmenn svo ekki nema rúmar fimm mínútur að jafna leikinn þegar að Mattíhas Guðmundsson slapp inn fyrir vörn Grindvíkinga og skoraði laglegt mark.
Valsmenn áttu skalla í stöng skömmu fyrir leikslok en Grindvíkingar náðu að halda fengnum hlut og eru komnir með 12 stig í deildinni og verma 10. sæti deildarinnar.
Mynd: Magnús Björgvinsson skoraði mark Grindvíkinga í kvöld.