Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík með góðan sigur á Haukum
Damier Erik Pitts lék vel fyrir Grindavík og var með 21 stig í gær. Myndir/Ingibergur Þór Jónasson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 24. mars 2023 kl. 09:23

Grindavík með góðan sigur á Haukum

Er Keflavíkurblaðran sprungin?

Grindvíkingar unnu góðan sigur á sterku liði Hauka í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik á meðan Keflvíkingar töpuðu fyrir ÍR sem féll þrátt fyrir sigur. Með tapinu í gær hefur Keflavík tapað fyrir báðum liðunum sem falla í síðustu leikjum – ótrúlegur viðsnúningur í gengi liðsins sem tróndi á toppnum lengst framan af móti.

Í kvöld tekur Njarðvík á móti Val í mikilvægum toppslag en liðin eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru óleiknar.

Grindavík - Haukar 77:72

(21:15, 22:18, 25:23, 9:16)

Grindavík tók á móti Haukum í HS orkuhöllinni í Grindavík. Heimamenn mættu vel gíraðir í leikinn og tóku hann föstum tökum frá upphafi og fóru með tíu stiga forystu inn í hálfleikinn (43:33).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þriðji leikhluti var jafn en í þeim fjórða fóru gestirnir að bíta frá sér og saxa á forskot Grindvíkinga sem héldu velli og fóru með sterkan sigur af hólmi (77:72).

Ólafur Ólafsson hefur verið gríðarlega öflugur á leiktíðinni með Grindavík, hann var með fjórtán stig, þrettán fráköst og tíu stoðsendingar í gær.

Grindavík: Damier Erik Pitts 21, Gkay Gaios Skordilis 15/9 fráköst, Ólafur Ólafsson 14/13 fráköst/10 stoðsendingar, Zoran Vrkic 11/7 fráköst, Nökkvi Már Nökkvason 10, Valdas Vasylius 4, Bragi Guðmundsson 2/5 stoðsendingar, Hilmir Kristjánsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Arnór Tristan Helgason 0.


Halldór Garðar Hermannsson hefur stigið upp í síðustu leikjum, í gær var hann með sautján stig og fimm stoðsendingar. Mynd úr safni Víkurfrétta/JPK

ÍR - Keflavík 92:85

(22:21, 25:24, 25:15, 20:25)

Keflvíkingar virðast algerlega búnir að missa alla trú á eigin getu en liðið hefur spilað vægast sagt illa eftir áramót. Meiðsli Harðar Axels Vilhjálmssonar, fyrirliða, hafa aðeins gert illt verra og rúið leikmenn því litla sjálftrausti sem var eftir og leikgleði.

Í desember mættust þessi sömu lið í fyrri umferðinni og þá vann Keflavík með tuttugu stigum (108:88), í gær náðu Keflvíkingar mest tveggja stiga forystu og virkuðu illa undirbúnir.

Nú er aðeins ein umferð eftir í Subway-deild karla áður en úrslitakeppnin hefst og eins og staðan er núna á Keflavík lítið erindi þangað. Spjótin hafa beinst að Hjalta Vilhjálmssyni, þjálfara liðsins, að undanförnu en það er ekki hægt að fría leikmenn, þeir þurfa að axla sína ábyrgð og girða sig í brók ætli Keflavík ekki í snemmbúið sumarfrí. Mynd úr safni Víkurfrétta/JPK

Keflavík: Dominykas Milka 18/12 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 17/5 stoðsendingar, Eric Ayala 15/4 fráköst, David Okeke 11/4 fráköst, Valur Orri Valsson 10, Igor Maric 5/4 fráköst, Magnús Pétursson 5, Ólafur Ingi Styrmisson 2, Jaka Brodnik 2, Yngvi Freyr Óskarsson 0, Nikola Orelj 0, Frosti Sigurðsson 0.