Grindavík með frábæran sigur – Keflavík steinlá
Það var ólíkt hlutskiptið hjá nágrönnunum á Suðurnesjunum í Pepsi-deild karla í kvöld. Grindvíkingar mættu Val á heimavelli sínum og höfðu þar 3-1 sigur. Bogi Rafn Einarsson, Páll Guðmundsson og Gilles Mbang Ondo skoruðu mörk Grindavíkur sem lyftu sér upp úr fallsæti með sigrinum.
Keflvíkingar steinlágu hins vegar Fram á Laugardalsvellinum og sáu í raun aldrei til sólar. Lokatölur urðu 5-0 fyrir Fram sem komust tveimur mörkum yfir eftir aðeins 15. mínútna leik.
Eftir leiki kvöldsins eru Grindvíkingar í 9. sæti með 15 stig eftir 14 leiki en Keflavík er áfram í 4. sætinu með 24 stig eftir 15 leiki. Næsta umferð verður leikinn á sunnudag en þar verða bæði þessi lið í eldlínunni. Keflavík fer þá í heimsókn á teppið hjá Stjörnunni í Garðabæ en Grindvíkingar mæta Þrótti R. í fallslag á Valbjarnavelli.
Mynd: Grindavík fagnar þriðja marki sínu í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson