Grindavík leikur til úrslita á Reykjanes Cup
Í dag og kvöld verður leikið um sæti á Reykjanes Cup í meistaraflokki karla og fara leikirnir allir fram í Ljónagryfjunni.
Klukkan 17:00 leika nágrannarnir Njarðvík og Keflavík um 5. sætið í mótinu. Chris Sprinker hefur leikið fyrri tvo leikina með UMFN í mótinu og í dag mætir Travis Holmes til leiks með drengjunum, en kappinn kom til landsins í gærmorgun og er spenntur fyrir komandi átökum.
Klukkan 19:00 mætast Fjölnir og ÍR í leik um 3ja sætið. Fjölnismenn sigruðu Keflvíkinga 95-90 í framlengingu á Sunnubrautinni í gær en ÍR tapaði 59-79 gegn Snæfellingum.
Klukkan 21:00 er svo úrslitaleikur Reykjanes Cup og þar mætast Snæfell og Grindavík en þau hafa bæði unnið báða leiki sína í riðlinum. Þess má geta að það voru ÍR-ingar sem sigruðu mótið í fyrra og árið áður voru það Hólmarar svo þeir eiga möguleika á að sigra þetta mót öðru sinni í kvöld.
Það kostar 500 krónur inn í dag, og gildir miðinn fyrir alla leikina - verður vart ódýrara.
Umfn.is