Grindavík lagði Keflavík: Páll Axel stjarna kvöldsins
Páll Axel Vilbergsson sýndi allar sínar bestu hliðar í kvöld þegar Grindavík burstaði Keflavík 116-99 í Iceland Express deild karla. Páll Axel gerði 40 stig í leiknum og hitti úr 9 af 10 þriggja stiga skotum sínum og var rjúkandi heitur. Jafnt var með liðunum í upphafi leiks en Grindvíkingar reyndust mun sterkari í síðari hálfleik og náðu að minnka bilið á milli sín og Keflavíkur um tvö stig og eiga því enn möguleika á því að ná 5. sætinu af Keflavík í síðustu umferð deildarinnar sem fram fer á fimmtudag.
Bakvarðameiðsli Keflavíkur settu nokkuð strik í reikninginn hjá liðinu í kvöld. Arnar Freyr Jónsson var í myndatöku vegna meiðsla sem hann hlaut á dögunum í leik gegn Hamri/Selfoss og Tony Harris var hvíldur eftir að hafa orðið fyrir smávægilegum meiðslum í síðasta leik. Sigurður Sigursson sem átti fínan leik fyrir Keflavík í síðasta leik lá svo heima með flensuna svo það var ekki fullskipað Keflavíkurlið sem mætti í Röstina í kvöld. Hituna af leikstjórnun Keflavíkur bar því Sverrir Þór Sverrisson og skilaði hann hlutverki sínu nokkuð vel í kvöld.
Þorleifur Ólafsson og Magnús Gunnarsson settu tóninn í kvöld er þeir opnuðu leikinn með sinni hvorri þriggja stiga körfunni. Liðin skiptust á því að skora en sinntu varnarleiknum þeim mun minna. Góður kafli hjá gestunum kom Keflavík í 17-22 en þá tóku Grindvíkingar leikhlé og skiptu yfir í 2-3 svæðisvörn eftir hléið. Svæðisvörnin gekk ágætlega hjá Grindavík og náðu þeir fljótlega forystunni 25-24 eftir gegnumbrot hjá Adam Darboe. Það voru þó Keflvíkingar sem höfðu yfir að loknum fyrsta leikhluta 31-32 eftir körfu frá Sebastian Hermanier sem skoraði síðustu körfu leikhlutans þegar fjórar sekúndur voru eftir.
Páll Axel Vilbergsson kom sjóðandi heitur inn í annan leikhluta og kom Grindavík í 42-37 með þriggja stiga körfu en hann gerði 11 fyrstu stig Grindavíkur í leikhlutanum. Ómögulegt er að ráða við Pál þegar hann dettur í svona ham og sama hvað Keflvíkingar reyndu þá skoraði Páll Axel nokkurnveginn að vild. Þrátt fyrir stórkostlegan leik hjá Páli hleyptu Keflvíkingar gestgjöfum sínum ekki of langt í burtu. Bæði lið skiptu ört inn og út leikmönnum í fyrri hálfleik og fengu leikmenn að spreyta sig sem jafnan þurfa að verma tréverkið. Grindvíkingar, með Pál Axel í broddi fylkingar, leiddu þegar liðin gengu til hálfleiks 63-58 og óvenjulega mikið skorað í kvöld og leikurinn hraður og skemmtilegur í fyrri hálfleik.
Páll Axel var kominn með 26 stig í Grindavíkurliðinu í hálfleik en var ekki á þeim buxunum að láta þar staðar numið.
Keflvíkingar náðu að jafna metin í 3. leikhluta í 65-65 með körfu frá fyrirliðanum Magnúsi Gunnarssyni. Þorleifur Ólafsson og Adam Darboe tóku þá netta rispu og juku muninn skyndilega í 10 stig, 77-67. Á þessum kafla gerðust Keflvíkingar sekir um slæmar sendingar og refsuðu heimamenn nánast undantekningalaust í hvert skipti. Páll Axel breytti stöðunni í 82-69 með þriggja stiga körfu en Gunnar Einarsson minnkaði muninn í 82-72 með þriggja stiga körfu hinum megin. Gunnar átti fínan leik í kvöld fyrir Keflavík og gerði 15 stig og barðist vel en aðrir leikmenn í Keflavíkurliðinu fóru ekki að fordæmi hans. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 90-79 Grindavík í vil.
Fjórði leikhlutinn hófst með því að Grindavík gerði 10 stig gegn tveimur frá Keflavík og staðan því 100-81 og björninn unninn. Lokatölurnar urðu 116-99 eins og áður greinir og Páll Axel Vilbergsson hetja þeirra gulu með 40 stig, 90% þriggja stiga skotnýtingu og 3 fráköst. Stigahæstur í liði Keflavíkur var Sebastian Hermanier með 24 stig og 9 fráköst. Magnús Gunnarsson gerði 22 stig. Jonathan Griffin átti góðan dag hjá Grindavík með 23 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar en hann tróð þrívegis í leiknum með glæsibrag.
Keflvíkingar eru sem fyrr í 5. sæti með 24 stig, Grindavík í 6. sæti með 22 stig en Keflavík mætir Snæfell á fimmtudag og Grindavík mætir KR. Á fimmtudag er síðasta umferðin í Iceland Express deildinni en að henni lokinni hefst úrslitakeppnin þann 15. mars.
Gangur leiksins:
3-3, 17-18,31-32
39-35,51-43,63-58
67-67,82-69,90-79
100-81,106-88,116-99