Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Grindavík jafnar metin: Frábær fyrri hálfleikur heimamanna
Þriðjudagur 27. mars 2007 kl. 00:13

Grindavík jafnar metin: Frábær fyrri hálfleikur heimamanna

Grindvíkingar urðu í kvöld fyrstir liða til þess að leggja Njarðvíkinga að velli á nýju ári og bundu þar með enda á 18 leikja sigurgöngu Njarðvíkinga. Leikurinn var vægast sagt sveiflukenndur en 30 stig skildu liðin að í hálfleik þar sem staðan var 56-26 Grindavík í vil. Njarðvíkingar áttu magnaðan síðari hálfleik en það reyndist of mikið verk að jafna metin og því fóru Grindvíkingar með góðan 88-81 sigur af hólmi. Staðan er því jöfn, 1-1, í einvíginu og mætast liðin að nýju á fimmtudag í Ljónagryfjunni kl. 20:00. Jonathan Griffin gerði 23 stig í liði Grindavíkur í kvöld en þeir Jóhann Árni Ólafsson og Igor Beljanski gerðu báðir 21 stig fyrir Njarðvík.

 

Heimamenn voru klárir strax í upphafi leiks og breyttu stöðunni fljótt í 8-2 en Þorleifur Ólafsson fékk snemma tvær villur í liði Grindvíkinga. Igor Beljanski hélt Njarðvíkingum inni í leiknum í 1. leikhluta en honum lauk engu að síður í stöðunni 25-13 Grindavík í vil. Stórleikur heimamanna hefur eflaust komið flatt upp á Íslandsmeistarana sem voru fjarri sínu besta í upphafi leiks.

 

Félagarnir Brenton Birmingham og Jeb Ivey hafa mátt muna sinn fífil fegurri í þessum fyrri hálfleik í kvöld og á lokasprettinum í 2. leikhluta gerðist Brenton sekur um að tapa hverjum boltanum á fætur öðrum. Á meðan fóru Grindvíkingar á kostum og hittu vel fyrir utan og voru einnig duglegir að sækja að körfunni. Kristján Sigurðsson kom sterkur inn af bekknum fyrir Njarðvík og setti niður tvo þrista en þeir höfðu lítið að segja gegn dýrvitlausum Grindvíkingum sem leiddu með 30 stigum, 56-26 þegar liðin gengu til hálfleiks. Ótrúlegar hálfleikstölur í Röstinni í kvöld og Íslandsmeistararnir sem börn í höndum Grindvíkinga.

 

Eins og við var að búast mættu Njarðvíkingar brjálaðir til síðari hálfleiks og hófu umsvifalaust að saxa á forskot heimamanna. Jóhann Árni Ólafsson setti niður þrjár þriggja stiga körfur með skömmu millibili fyrir Njarðvík og þeir grænu náðu að minnka muninn í 13 stig, 72-59 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þriðji leikhlutinn fór því 33-16 fyrir Njarðvík og ekki laust við að smá óöryggi kæmi í leik heimamanna.

 

Í fjórða leikhluta komust Njarðvíkingar ansi nærri Grindavík og sáust tölur eins og 78-70 og síðar 82-75 en heimamenn gáfu sig hvergi og náðu að ljúka leik með 7 stiga sigri, 88-81.

 

Stórkostlegur munur var á Grindavíkurliðinu í kvöld frá því í fyrsta leiknum í Ljónagryfjunni og hið sama má segja um Njarðvíkinga, í það minnsta um frammistöðu þeirra í fyrri hálfleik. Ósigur Njarðvíkinga í kvöld var sá fyrsti í röðinni síðan 19. nóvember 2006 er þeir lágu gegn KR í DHL-Höllinni. Glæsileg sigurganga Íslandsmeistaranna er á enda og mögnuð rimma Suðurnesjaliðanna framundan. Það ætti enginn að láta sig vanta í Ljónagryfjuna á fimmtudag enda hafa bæði lið sýnt að þau eiga fullt erindi í úrslitin, og gott betur en það.

 

Grindavík og Njarðvík eru ólík lið og kemur það mörgum skringilega fyrir sjónir að sjá Friðrik Stefánsson elta Pál Axel út að þriggja stiga línu og sömuleiðis að sjá Pál Axel berjast við Igor og Friðrik í teignum. Liðin virðast einnig mjög meðvituð um hvar eigi að koma höggi á hvort annað og í kvöld tókt Grindavík að svara fyrir kjaftshöggið sem þeir fengu í fyrsta leik í Ljónagryfjunni og því spennandi að sjá hvernig þriðji bardagi liðanna verður.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024