Grindavík jafnaði og Keflavík komið í 2-0
Úrslitaleikur um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í Ljónagryfjunni á þriðjudagskvöld!
Keflvíkingar og Haukar mættust í Schenker höllinni..
Haukarnir komu sterkir til leiks og höfðu frumkvæðið framan af leik og leiddu eftir 1. leikhluta 17-14 og komust svo í 22-17 áður en Keflvíkingar hentu í pressuvörn sem heimastúlkur áttu erfitt með að leysa. Keflvíkingar jöfnuðu leikinn í 24-24 um miðbik 2. leikhluta en þá tóku Haukarnir leikhlé til að ráða ráðum sínum. Eftir það áttu heimastúlkur auðveldara með að leysa úr pressunni og fylgdu nokkrar góðar körfur í kjölfarið og þegar 1 og hálf mínúta voru eftir af leikhlutanum var staðan orðin 35-28 fyrir Hauka sem héldu Keflvíkingum 6 stigum frá sér í hálfleik, 39-33.
Stigahæstar í hálfleik hjá Keflavík voru Carmen Tyson Thomas með 16 stig og Sara Rún Hinriksdótir 8.
Keflavíkurstúlkur mættu grimmar til síðari hálfleiks og á fyrstu tveimur mínútum 3. leikhluta höfðu þær breytt stöðunni úr 39-33 í 39-40 sér í vil. Carmen Tyson Thomas hélt áfram að vera atkvæðamikil á þessum kafla og svæðisvörnin að halda nokkuð vel þegar Haukarnir náðu að komast framhjá hápressu gestanna. Keflavíkuriðið byrjaði fjórðunginn á 6-20 spretti og staðan 45-53 þegar 3 mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Haukarnir lokuðu þó fjórðungnum með 7-0 skorpu og allt í járnum fyrir lokaleikhlutann, 52-53 fyrir Keflavík.
Keflavíkurstúlkur héldu áfram að leiða í 4. leikhlutanum og hleyptu Haukum ekki nálægt sér fyrr en 3 mínútur lifðu leiks þegar munurinn var orðinn aðeins aðeins 1 stig, 67-68 þegar Lele Hardy setti niður 3ja stiga skot. Það var svo Sara Hinriksdóttir sem að innsiglaði sigur Keflvíkinga með því að skora síðust 6 stig leiksins og lokatölur í Hafnarfirði urðu 67-74 fyrir Keflavík sem er þar með komið í lykilstöðu fyrir þriðja leik liðanna þar sem að liðið getur tryggt sér sæti í lokaúrslitum Íslandsmótsins með sigri.
Stigahæstar hjá Keflavík voru Carmen Tyson Thomas með 31 stig og 13 fráköst og þá var Sara Rún Hinriksdóttir með 29 stig og 7 fráköst og sáu þær stöllur að mestum hluta um stigaskor Keflavíkinga.
Hjá Haukum var Lele Hardy atkvæðamest með 28 stig.
Grindavíkurstúlkur mættu deildarmeisturum Snæfells í Röstinni og ætluðu sér að hefna fyrir 22 stiga ósigur í Stykkishólmi í síðasta leik þar sem að Grindvíkingar stóðu vel í Snæfellingum þar til um 5 mínútur lifðu leiks.
1. leikhluti var í járnum þar sem að liðin skiptust á að skora og baráttan í fyrirrúmi. Snæfell hafði þó 2ja stiga forystu eftir leikhlutann 19-21. Snæfell byrjaði svo 2. leikhluta þónokkuð betur og komust 9 stigum yfir, 19-28, og þegar rúmar 2 mínútur lifðu af leikhlutanum var munurinn orðinn 11 stig, 26-37 fyrir gestina. Liðin gengu svo til búningsherbergja í stöðunni 33-42 en Grindvíkingum gekk erfiðlega að beisla Denise McCarthy sem að skoraði nánast að vild.
Kristina King hafði gert 15 stig fyrir Grindavík og Pálína Gunnlaugsdóttir 11 en í liði Snæfells var Denise McCarthy búin að salla niður litlum 27 stigum!
Grindvíkingar hófu 3. leikhlutann mun betur og höfðu minnkað muninn í 42-46 á fyrstu 4 mínútum fjórðungsins og nokkuð ljóst að heimastúlkur ætluðu sér ekki að missa Snæfell of langt frammúr sér og gera sér róðurinn erfiðari. Áfram héldu þær gulklæddu og Pálína María fór fyrir sínu liði sem hafði komið sér 6 stigum yfir áður en leikhlutanum lauk, 55-49, og unnið leikhlutann 22-7. Mestu munaði um að Denise McCarthy var ekki að fá neitt svigrúm til að athafna sig og Grindavíkurvörnin orðin firnasterk.
Snæfell gerði harða atlögu að Grindvíkngum í lokaleikhlutanum til að freista þess að stela sigrinum og komust yfir um miðbik leikhlutans. Grindvíkingar neituðu að gefast upp og Pálína María fór hamförum fyrir utan þriggja stiga línuna á lokakaflanum og kom Grindvíkngum aftur yfir. Grindvíkingar héldu út og lönduðu sætum 7 stiga sigri, 79-72.
Einvígið er þar með orðið jafnt og hafa bæði lið landað einum sigri hvert.
Pálína María Gunnlaugsdóttir var frábær fyrir Grindavík og skoraði 31 stig en Kristina King var einnig að spila fantavel og lauk leik með 30 stig. Þá átti Petrúnella Skúladóttir flotta spretti í síðari hálfleik og skoraði 11 stig.
Hjá Snæfelli var Denise MacCarthy með 36 stig og 14 fráköst en Grindvíkingar héldu henni í 8 stigum í síðari hálfleik. Hildur Sigurðardóttir daðraði svo við þrennuna með 13 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.
Næsti leikdagur er á þriðjudagskvöld þar sem Keflavík tekur á móti Haukum í TM höllinni, Grindvíkingar heimsækja Snæfell heim í Fjárhúsið í Stykkishólmi.
Í 1. deild kvenna jöfnuðu Stjörnukonur einvígi sitt við Njarðvíkinga eftir hörkuleik í Ásgarði í Garðabæ. Lokatölur þar urðu 55-49. Liðin munu því leika hreinan úrslitaleik í Ljónagryfjunni um sæti í úrvaldeild á næsta tímabili en sá leikur verður einnig á þriðjudagskvöldið.