Grindavík jafnaði metin: Sigur í framlengdum leik
Einvígi Grindavíkur og Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna stendur nú jafnt 1-1 eftir að Grindavíkurkonur lögðu Keflavík 100-94 í framlengdum leik í Röstinni í gær. Tamara Bowie jafnaði metin í 98-98 þegar fjórar sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Þegar 12 sekúndur voru eftir af framlengingunni rak Ingibjörg Jakobsdóttir smiðshöggið fyrir Grindavíkurkonur er hún setti niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 99-94 fyrir Grindavík og það reyndist of skammur tími fyrir Keflavíkurkonur til þess að jafna metin og því fagnaði Grindavík sigri í sannkölluðum spennuleik.
Bæði lið skoruðu nánast að vild í 1. leikhluta og skiptust á því að hafa forystuna. Margrét Kara Sturludóttir kom snemma inn á í liði Keflavíkur og fékk á ótrúlega skömmum tíma þrjár villur og var því fljótt kölluð aftur af velli af Jóni Halldóri þjálfara Keflavíkur. Grindavíkurkonur leiddu að loknum leikhlutanum 33-27 eftir flautukörfu frá Tamöru Bowie en hún var óstöðvandi í gær og gerði alls 42 stig í leiknum, tók 15 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Keflvíkingar lentu snemma í öðrum leikhluta í villuvandræðum þar sem þær Ingibjörg Elva, Svava og Margrét Kara voru allar komnar með þrjár villur. Við það kom Birna Valgarðsdóttir sterk til leiks hjá Keflavík og er hún óðum að finna sitt gamla form en talið var að hún gæti lítið sem ekkert beitt sér í úrslitakeppninni en er um þessar mundir að reynast sínu liði afskaplega vel. Grindvíkingar höfðu enn frumkvæðið þegar flautað var til hálfleiks og aftur gerði Tamara Bowie flautukörfu og nú frá þriggja stiga línunni og staðan 58-49 fyrir Grindavík í hálfleik.
Tamara Bowie var rétt eins og í fyrsta leik liðanna með 30 stig í hálfleik en hjá Keflavík var TaKesha Watson með 14 stig.
Snemma í þriðja leikhluta skiptu Keflvíkingar yfir í svæðisvörn minnugar þess hversu vel hún gekk í fyrsta leiknum. Eins og við manninn mælt þá hófu gestirnir að saxa á forskot Grindavíkur og þær gulu gerðu ekki stig síðustu fimm mínúturnar í leikhlutanum. Keflavík gerði 14 síðustu stig leikhlutans og leiddu 66-69 þegar fjórði og síðast leikhlutinn gekk í garð.
Snemma í fjórða leikhluta fékk Svava Stefánsdóttir sína fimmtu villu í liði Keflavíkur og varð frá að víkja og góð rispa gekk í garð hjá Grindavík. Heimaliðið breytti stöðunni fljótlega í 76-71 með þriggja stiga körfu frá Ingibjörgu Jakobsdóttur. Keflavík pressaði allan fjórða leikhluta og uppskáru annað veifið góðar körfur fyrir vikið en engu að síður voru liðin hnífjöfn. Þegar um mínúta var til leiksloka jafnaði Ólöf Helga Pálsdóttir metin fyrir Grindavík í 87-87 með þriggja stiga körfu en Keflavík komst aftur yfir í 87-89. Grindvíkingar fengu síðustu sókn leiksins og sendu boltann beint á Tamöru Bowie sem skilaði Grindavíkurkonum í framlengingu með körfu inni í teig þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Keflavík náði ekki að nýta sér tímann sem eftir var og því varð að grípa til framlengingar.
Gamla klysjan stóð heima í gær. Það lið sem fyrr skorar í framlengingunni vinnur og sú varð raunin. Tamara Bowie gerði fyrstu stig framlengingarinnar og Grindavík hafði ávallt frumkvæðið í framlengingunni. Þriggja stiga karfa Ingibjargar Jakobsdóttur gerði svo útslagið í leiknum er hún breytti stöðunni í 99-94 þegar 12 sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur 100-94 eins og áður greinir en þær Tamara Bowie og Hildur Sigurðardóttir fóru á kostum í Grindavíkurliðinu í gær og gerðu samtals 66 stig í leiknum. Hildur gerði 24 stig og tók 16 fráköst en
Þriðji leikur liðanna fer fram í Sláturhúsinu í Keflavík á þriðjudag kl. 19:15. Staðan í einvíginu er 1-1 en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslit.