Grindavík jafnaði 1-1 - Brenton fór fyrir þeim gulu
Úrvalsdeildarlið Grindavíkur hafði betur í kvöld gegn KR, 100:88, í öðrum leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfu. Leikurinn fór fram í Grindavík. Staðan er því jöfn í einvíginu en hvort lið hefur unnið einn leik. Næsti leikur er á fimmtudag í Vesturbænum.
Leikurinn var æsispennandi allan tímann en Grindavík var ávallt skrefinu á undan. Munurinn var þó aldrei meiri en fimm stig þar til í síðasta leikhluta að Grindvíkingar náðu afgerandi undirtökum og juku forskotið.
Stigaskorið hjá Grindavík var mun dreifðara en í síðasta leik. Brenton Birmingham var stigahæstur með 28 stig og 8 fráköst og var frábær í leiknum, Nick Bradford og Þorleifur Ólafsson voru með 14 stig. Þorleifur hirti auk þess 11 fráköst. Alls skoraði Grindavíkurliðið ellefu 3ja stiga körfur í leiknum, þar af Brenton fjórar.
Hægt er að skoða fleiri myndir úr leiknum í ljósmyndasafni Víkurfrétta.
---
VF-myndir/Hildur Björk Pálsdóttir: (Efsta mynd): Arnar Freyr á fullu með boltann gegn KR í kvöld.
Páll Axel á fleygiferð gegn KR í kvöld.
Jason Dourisseau átti stórleik hjá KR. Hér treður hann í körfu heimamanna.
Brenton sækir að körfu KR.
Jónsi í Svörtum fötum náði upp góðri stemmningu fyrir heimamenn í kvöld, flottur í Grindavíkurbúningnum.